Minningar Huldu Á. Stefánsdóttur 1-4

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1985

Útgáfuár: 1985-8.

Hjörtur Pálsson bjó handritið til prentunar.

Af kápu fyrsta bindis:

Hulda Á. Stefánsdóttir er ein þeirra kvenna sem sett hafa svip á öldina og þjóðin öll þekkir og ann.

Frásögn hennar stendur djúpum rótum í þjóðlífi og sögu. Tveir af forfeðrum hennar störfuðu við innréttingar Skúla fógeta áður en Reykjavík öðlaðist kaupstaðarréttindi og langafi hennar tók þatt í Norðurreið Skagfirðinga sem afhrópuðu Grím amtmann á Möðruvöllum á frelsisvori þjóðarinnar 1849. Á þeim sögufræga stað leit Hulda fyrst dagsins ljós laust fyrir aldamót. Faðir hennar var þjóðkunnur náttúrufræðingur, Stefán Stefánsson síðar skólameistari. Meðal æskuvina hennar voru Ólafur Davíðsson og Ólöf á Hlöðum. Ung að árum fluttist Hulda með foreldrum sínum til Akureyrar. Eftir gagnfræðapróf þar stundaði hún hússtjórnarnám í Danmörku. Seinna var hún um langt árabil húsfreyja á fornu frægðarsetri, Þingeyrum í Húnaþingi, og skólastjóri húsmæðraskólanna á Blönduósi og í Reykjavík.

Í fyrsta bindi endurminninga sinna segir Hulda Á stefánsdóttir frá ætt sinni og uppruna, foreldrum sínum og bernskudögum í Hörgárdal, en breiddin í frásögn hennar tengir sögu og samtíð og bregður ljósi yfir liðinn tíma, m.a. með gömlum bréfum og óbirtum kveðskap. Fólk, atvik og staðir verða ljóslifandi í frásögn Huldu. Mannlýsingar hennar eru skýrar og hispurslausar, yljaðar kímni og næmum lífsskilningi. Þar er dregin upp mynd af gömlum búskaparháttum og daglegu lífi í sveit og bæ fyrir áratugum. Alþýða og höfðingjar, karlar og konur, bændur og hafnarstúdentar, hefðarkonur og heldrimenn koma við sögu í ólíkum verkahring og misjöfnu umhverfi sem er vel lýst. Þess vegna verða minningar hennar náma fyrir alla sem unna mannfræði og menningarsögu og þjóðlegum fróðleik í víðum skilningi.