Meiri gauragangur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1991
Flokkur: 

Um bókina

Framhald af Gauragangi (1988). Endurútgefin í kilju: Forlagið 1998.

Úr Meiri gauragangi

Eftir tuttugu mínútna akstur komum við að húsinu. Það var talsvert stærra en Alþingishúsið í Reykjavík og stóð eitt í garði sem hvergi sá fyrir endann á.
 - Af hverju vinnur þú á bókasafni en býrð í höll? spurði ég.
 - Af því ég er bókavörður.
 Ranúr benti á einhverjar skepnur sem stóðu á milli trjánna og voru að glápa á okkur. ég hafði séð dádýr í einhverjum hroðalegum teiknimyndum frá Walt Disney fabrikkunni og í ótal ömurlegum barnabókum, en þetta virtust vera alveg vasekta og straufríar skepnur af ættinni cervus dama. Klara sagði að dádýrin væru friðuð og skógarvörðurinn gætti þeirra eins og sjáaldurs auga síns. Þegar við stigum út úr bílnum fannst mér ég hafa minnkað um þrjátíu sentimetra. Allt var stórt, hliðið, heimreiðin, trén og húsið. Og garðurinn var í raun skógur. Konan sem kom niður tröppurnar var fast að því tröllvaxin. Hún heilsaði okkur samt eins og við værum algjörlega eðlilegar mannverur. Þegar við gengum inn hvíslaði Ranúr: Eigum við að fara úr skónum.
 - Nei, sagði ég, þú átt að fara úr líkamanum.
 Klara leiddi okkur eftir gljáfægðum gangi inn í sal sem var fullur af forljótum málverkum af dauðum körlum og kerlingum. Úti í hornum stóðu brynjur eins og í öllum góðum hryllingskvikmyndum. Móðir Klöru, sem hafði kynnt sig sem Margréti Ljónsfót eða eitthvað því um líkt, var horfin, en við hnigum niður í gömul silkidregin húsgögn og Klara togaði í spotta og við heyrðum að bjalla kliðaði einhvers staðar í næsta sólkerfi.
 - Þið þurfið ekki að vera feimnir, sagði Klara, þetta er allt miklu hallærislegra en það lítur út fyrir að vera.
 - Geymið þið lík a gömlum biðlum í brynjunum? spurði ég.
 Klara sagði að allur úrgangur, þar á meðal ónothæfir biðlar, færi í haughúsið.

(s. 84-85)