Lúin bein

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2002
Flokkur: 

Úr Lúin bein:

 Þótt rökkrið grúfði yfir var ekki niðdimmt og enn fetljóst. Eigi að síður tóku þeir vasalugtir og héldu í gagnstæðar áttir, Jafet með keðju hundsins í hendi. Hann fór upp að skúrunum, hóaði tvisvar og hundurinn birtist á augabragði utan úr húminu, kátur, dillandi rófunni. Sem borgarhundur naut hann sjaldan slíks frelsis, en þegar það bauðst nýtti hann það til hins ítrasta. Óþarfi að fjötra hann strax; það tæki Önund vafalítið dágóða stund að ganga úr skugga um að allt væri eins og það ætti að vera í grunninum. Jafet rölti því í hægðum sínum niður túnhallann aftur og Sámur hélt sig að meira eða minna leyti við hlið hans, þó stundum á kátu stökki út undan sér. Þegar þeir komu að jeppanum lagðist seppi við eitt afturdekkið en Jafet tyllti sér á skottlokið og hvíldi lúin bein. Erfiður dagur, jafnframt sá happasælasti á fræðimannsferli hans, var á enda runninn. Öðrum fremur átti hann hér sigri að fagna þótt aðrir vildu eigna sér heiðurinn; hann hafði átt uppástunguna að því að grafa eftir minjum að Þykkvabæ, hann hafði unnið heimildavinnuna og staðið fyrir frumrannsóknum, hann hafði stýrt uppgreftrinum. Sennilega yrði þetta hátindurinn á ferli hans. Hann skotraði augunum til skrínsins góða sem var að mestu hulið teppi. Nei, hann fékk ekki staðist það, hann varð að líta betur á þessi ómetanlegu sigurlaun. Hann teygði sig, losaði teygjuböndin, dró með gát til sín vöndulinn og vafði teppinu varlega í sundur. Hann virti drykklanga stund fyrir sér emaleraðan og dældaðan silfurkistilinn og sæluhrollur hríslaðist um hann. Ofurhægt lyfti hann lokinu. Þetta var stund fullkomnunar, þarna voru sigurlaunin.
 Og þá vildi óhappið til. Utan úr hálfrökkrinu sveimaði stór fluga, sem Jafet hefði svo getað svarið að væri geitungur, og settist beint ofan í kassann. Viðbrögðin voru gjörsamlega ósjálfráð, Jafet spratt á fætur, veslings flugan sveif sína leið, en ekki vildi betur til en svo að beinið hrökk úr kistlinum. Sámur var ekki lengi að grípa gæsina. Örskotsfljótur hentist hann úr sporum, hrifsaði til sín í kjaftinn einu varðveittu líkamsleifar Þorláks helga og hljóp sína leið.

(s. 84-85)