Loftskip

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2006
Flokkur: 

Um bókina:

Lesandanum er boðið í ferð með strætisvagni sem enga endastöð virðist hafa þar sem farþegarnir rýna í leiðarkortin og úti sér ekki í nóttina fyrir myrkri. Skáldið fer  með lesandann í ferðalag jafnt um kunnuglegar sem fáfarnari slóðir og reynist þar margt annað en sýnist.

Úr Loftskipi:

Nætur sem daga
Allir vegir geyma ferðalög
allar hafnir brottför og komu
allir stígar leyndar þrár -
nætur sem daga leggja
óræðir draumar af stað
með slitna kápu á öxlum
og hött úr þruski vindsins
(7)                


Víst gæti maður
Víst gæti maður dáið fallega
á sumardegi undir hvítri sólhlíf

eða berfættur í flæðarmáli
stormur í eyrum og salt í vitum

kannski dottandi í hægindastól með bók í hendi
eða á lækjarbakka og sumargola í stráum

jafnvel við kertaflökt
og haustnótt á glugga

fyrir hugarsjónum
sindrandi stjörnuþokur
í næturdjúpi
(19)