Ljóstollur

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1980
Flokkur: 


Úr Ljóstolli:

Ég fann tittlinginn á mér skríða saman af kvíða. Ég sat einn á kaffistofunni og beið. Pabbi hafði sagt mér að slappa bara af. Kallarnir og strákarnir kæmu bráðum. Hann væri búinn að láta verkstjórann vita af mér. Meistarinn hlyti að fara að koma, sagði pabbi og glotti. Ég hafði setið þarna í sirka tíu mínútur þegar þeir byrjuðu að tínast inn. Einn af köllunum hlammaði sér á móti mér. Hann lagði hausinn á dökkan blett á veggnum og var alveg að sofna þegar strákur missti brauðsneið á gólfið.
- Það er annars undarlegur andskoti að alltaf þegar maður missir niður brauðsneið þá lendir hún þannig á gólfinu að smjörið snýr niður. Það er alveg makalaus djöfull. Það hlýtur að vera eðlisþyngdin, sagði vinurinn hugsandi við sjálfan sig. - Smjörið hefur meiri eðlisþyngd en brauðið sjálft. Smjörið liggur eins og hella ofaná léttu brauðinu og snýr því við í loftinu.
Sá sem sat á móti mér saup slef og sagði: Það getur nú varla verið. Það rann einu sinni bakki með smurðu brauði úr höndunum á mér og maður skyldi halda að eðlisþyngd trés væri meiri en eðlisþyngd brauðs og smérs, en bakkinn snérist við og allar brauðsneiðarnar, allar brauðsneiðarnar lentu á hvolfi á gólfinu. Þetta hlýtur að vera eitthvað sérstakt með smjör.
- Nei, það er örugglega eðlisþyngdin, sagði gaur við hliðina á mér stríðnislega. Gengið glotti og einn byrjaði að hlæja með nefhljóðum: núhnuhnu. Ég vissi seinna að það var Hálfvitinn.
- Nei, þetta hlýtur að vera eitthvað sérstakt með smjör. Djöfull væri gaman að taka stóra járnplötu og smyrja aðra hliðina á henni með smjöri og henda henni ofan af verksmiðjunni hérna á móti og sjá hvort hún snerist við í loftinu. Ég þori að veðja þúsundkall. Ég þori að veðja þúsundkall að smjörið kæmi fyrst niður.
Liðið hló og Hálfvitinn flissaði hæst.
- Þetta er Kjallarameistarinn, hvíslaði Hangikjötið. Það var Hangikjötið sem sat við hliðina á mér.
Kjallarameistarinn leit spældur í kringum sig og kallaði: Ég skal veðja þúsundkall.
Ég leit á Meistarann. Hann var með alveg hrikalegt arnarnef og út úr nefinu löfðu nokkur hár. Ég sá glitta í gular og svartar hrossatennur. Hann púaði útum hálfopinn kjaftinn. Hárlufsurnar lágu yfir skallann.
- Þú þyrftir nú að róta vel undir dýnunni þinni þá, kallaði einhver, og við þetta varð liðið enn hressara. Meistarinn þagnaði og lagði aftur hausinn á dökka blettinn.
Ég leit yfir sundið á verksmiðjuna og sá fyrir mér stóra járnplötu útmakaða í smjöri hringsnúast í loftinu. Ég sá skugga hreyfast innan við skítugar rúðurnar og vissi að þeir voru að setja heflana og sagirnar í gang. Vindurinn lamdi rigninguna svo að bensínbrákirnar á malbikinu skiptu litum. Ég sá pabba koma labbandi fram sundið.

(s. 7-8)