Ljóð námu völd

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1990
Flokkur: 

Úr Ljóð námu völd:

Morgunstund

 Eldsnemma á morgnana eða réttara sagt seint á næturnar er helgistund eins og margir vita.

 Á þessari stundu hafa svefnleysingjar loksins dottað, elskendur hafa fengið sér kríu og örstutt mók hefur runnið á næturverði og leigubílstjóra. Sjálfsmorðshugsuðir annað hvort látnir eða sofnaðir.

 Á þessari stundu hafa glaðbeittir morgunæsingamenn ekki enn raskað ró stundarinnar.

 Ótal þjóðsögur og hjátrú þekkja menn um þessa stund og heitir hún ýmsum nöfnum á tungumálunum mörgu.

 Fæstir trúa samt einu orði af þessum sögum af því að enginn hefur fengið neina sönnun fyrir því sem gerist.

 Það er eins og þessi töfrastund, þessi galdrastund velji stundum einn og einn til þess að kynnast í raun töfrum sínum. Þeir sem það hafa reynt vita að sú reynsla er ótrúleg og ennfremur að reynslunni fylgir að enginn trúir frásögnum af henni.

 Þess vegna geri ég ekki ráð fyrir að þýði neitt að segja ykkur frá því að á þessari töfrastund lýsist hægt og rólega miðhlutinn af mósaikmynd Gerðar Helgadóttur á Tollhúsinu við Tryggvagötu.
 Lýsist eins og risaljóskastara sé beint að miðju verksins. Í raun er eins og ljósið komi innan frá; eins og kjarni verksins verði sjálflýsandi.

 Sömuleiðis er til lítils að minnast á þá staðreynd að á þessari galdrastund seytlar vatn niður ákveðna mynd eftir Kjarval sem hangir gjarnan í kaffistofunni á Kjarvalsstöðum og sést þar innum gluggana. Vatnið sprettur fram hægra megin ofarlega í myndinni og seytlar rólega þar til það þekur allan forgrunninn. Síðan hverfur það eins og auga sé deplað.

 Ég ætla ekki að reyna að segja ykkur frá ljósklæddu konunni sem gengur yfir Tjarnarbrúna á þessari morgunstund en hverfur jafnsnögglega og hún birtist.

 Ég fullyrði að þeir sem sjá hana, þó ekki sé nema einu sinni, gleyma því ekki.