Ljóð námu menn

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1988
Flokkur: 

Úr Ljóð námu menn:

Dúfur

Kötturinn á sjöundu hæð
hélt að hann væri dúfa

Hann var alinn upp á sjöundu hæð
frá því hann var vikugamall

Aldrei sá hann aðra ketti
Engin dýr nema menn
og svo dúfur útum gluggann

Fyrst hélt hann lengi vel
að hann væri maður
Einlæg áform hans að fá sér sæti
með ungu hjónunum við borðið
setja á sig servíettu og hefjast handa
að snæða forréttinn;
þessi áform enduðu alltaf með því
að hann var rekinn burt harðri hendi
og hvattur eindregið til að snæða
einhvern fjandann úr kattarskálinni

Löngum sat hann hugsi
í gluggakistunni
og horfði á dúfurnar

Fyrst langaði hann að stökkva á þær
leika við þær og glefsa í þær
Svo sló því allt í einu niður
í hausinn á honum
að auðvitað væri hann dúfa!
Nokkra daga á eftir sat hann
í gluggakistunni á sjöundu hæð
og sinnti því lítið sem ungu hjónin
og aðrir af þeirri dýrategund aðhöfðust
Fann til vaxandi samkenndar
með dúfunum
Undraðist hvað þær sniðgengu hann
vingjarnlega félagslynda dúfu
í gluggakistunni

Gleymdi sér svo alveg
dag einn skömmu fyrir kvöldmat

og stökk

Þegar hann var lagður til hinstu hvílu
í bakgarðinum
sátu dúfur í öllum gluggakistum