Listasafnið

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2012
Flokkur: 

Framhald bókanna Forngripasafnið (2010) og Náttúrugripasafnið (2011).

Uppsetning Forngripasafnsins og Náttúrugripasafnsins heppnaðist vel. Nú er bara efsta hæðin eftir og þar á Listasafnið að vera. En uppi er allt í drasli og fátt til að sýna annað en ómerkileg málverk og ljótar styttur. Pabbi Rúnars fær tilboð um vinnu í útlöndum og biður því mömmu hans að koma frá New York og ljúka verkinu. Til þess fær hún aðstoð úr ýmsum áttum – frá óvenjulegum vinum nær og fjær, krökkunum í Ásgarði og dularfullum fyrirbærum náttúrunnar.

Úr bókinni:

En þótt Forngripasafnið og Náttúrugripasafnið séu svona vel heppnuð þá er ekki allt tilbúið enn. Því Listasafnið er eftir. Það á að vera á efstu hæð Safnahússins. Og það er einmitt út af því sem pabbi Rúnars hefur allar þessar áhyggjur. Þar er nefnilega allt í skralli og honum finnst hann alls ekki hafa nógan tíma til að sinna því og gera það jafnflott og hin söfnin.

„Ég veit svei mér ekki hvernig ég á að láta þetta ganga upp hjá mér!“ Skarphéðinn andvarpar enn og aftur mæðulega þar sem hann liggur flatur í sófanum og starir upp í loftið. Það er engu líkara en hann haldi að lausn málsins geti hugsanlega komið beint frá ljósakrónunni.

Rúnar veit raunar að þessir kveinstafir pabba hans stafa af miklu leyti af tölvupóstinum sem kom frá Svíþjóð í gær. Síðan hann fékk póstinn frá sænsku fornleifafræðingunum hefur hann satt að segja verið ákaflega erfiður. Bæði annars hugar og eirðarlaus.

Það er vegna þess að þeir hafa boðið honum að koma út til Svíþjóðar til að vinna með sér við stórmerkilegt tæki. Þetta er þrívíddarmyndavél sem þeir komu með hingað í Ásgarð í fyrrasumar. Þeim finnst pabbi Rúnars vera svo klár og vilja þess vegna alveg endilega að hann hjálpi þeim við að gera tækið ennþá fullkomnara.

„Æ, ef ég á að segja eins og er þá dauðlangar mig að fara út til Svíþjóðar … en hvernig ætti ég svo sem að geta gert það?“

Í  fyrsta lagi fer ég ekki að skilja þig einan eftir hérna í reiðileysi … nú og í öðru lagi þarf ég náttúrulega að vera hér og halda áfram vinnunni við Listasafnið! Ég er meira að segja búinn að lofa sveitastjórninni að það verði hægt að opna það núna í haust og ég verð einfaldlega að standa við það. Loforð er loforð!“

(18-9)