Lifandilífslækur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2018
Flokkur: 

Um Lifandlífslæk
 

Árið er 1784 og Skaftáreldar hafa geisað á Íslandi í heilt ár. Í Kaupmannahöfn hittast ráðamenn til þess að ákveða hvað gera eigi við innbyggjara þessarar eyju arfakóngsins, hvort flytja skuli alla verkfæra Íslendinga til Danmerkur að vinna þar í verksmiðjum sem þarfnast vinnuafls. Að lokum er ákveðið að senda fulltrúa í alla landshluta að meta ástand þjóðarinnar áður en ákvörðun er tekin. Útsendari rentukammers til Strandasýslu er ungur háskólamaður af hálfíslenskum uppruna, Magnús Árelíus.

Magnús Árelíus er innblásinn af anda upplýsingarinnar og hlakkar til að mæla Ísland með sínum nýju mælitækjum, ekki síst vill hann komast á Cap Nord, Hornbjarg. En ferðalagið tekur óvænta stefnu þegar hann kynnist Íslendingum og kemst að raun um að raunveruleikinn er kannski flóknari en mælitæki hans segja til um – sérstaklega norður á Ströndum. Þar sem Lifandilífslækur rennur.
 

Úr Lifandilífslæk
 

Hann hafði haldið því leyndu fyrir öllum nema móðurinni, hún ein vissi af köstunum. Það var ekki beinlínis epilepsía, hafði dotkorinn sagt, bara þessi stöku flog, oft með löngu millibili, en hann vissi að maran á nóttunni var alltaf undanfari flogakastsins. Kvíðinn fylgdi mörunni, óttinn við að missa stjórnina og liggja á gólfi með spasma fyrir framan fólk. Á skólaárunum meldaði hann sig veikan og hélt sig heima daginn eftir möruna. Nú var engin undankomuleið.

Það hlaut að koma, hugsaði hann þar sem bleytulyktin steig upp af hestinum í nasir hans, kastið hlaut að koma þennan dag og það var í raun einasta útleiðin frá kvíðanum, að fá það bölvaða kast, taka á móti eins og ærlegur maður og slokkna nokkra stund. Hann myndi þurfa að útskýra það fyrri assistensunum – hann minntist hendingar úr Kingósálmi: ver sterk, mín sál. Hann hugsaði aldrei um Guð eða sálma nema á slíkum augnabliku. Ef til vill var Guð bara fyrir hina veiku, maður sem ekkert óttast þarf engan Guð.

Bárður var hinsvegar málglaður þennan blauta og kalda morgun. Hann surði hvað lagsmaður Jón hugsaði sér að gera við sín laun úr expedísjón. Aldrei þessu vant var Jón Grímsson opinn um hjartagáttirnar, það er vitað að þegar menn lenda saman í vosi dragast þeir ýmist að eða frá hver öðrum og hér stefndi í það fyrrnenfnda, að minnsta kosti með þeim Bárði. Hann sagðist elska stúlku í Borgarfirði. Hún var geislandi fögur eins og nymfa, orð sem þurfti að skýra út fyrir Bárði, en hér voru snurður á þræði. Foreldrar hans æsktu annars ráðahags. Jón hafði hitt hana sem afsettur konunglegur kálgarðaræktunarráðunautur, að sjálfsögðu notaði hann sjálfur ekki þann titil heldur bara urtagarðakennari – en vér höfum visst yndi af að rita afsettur konunglegur kálgarðaræktunarráðunautur.

Hann giskaði á að hún væri nú búin að koma upp þeim grösugasta urtagarði sunnanheiða, hún var hrein og raddmild, vilji hennar einlægur og fagur, axlirnar hvítar og sterklegar. Hann skyldi heimsækja hana þegar expedísjón væir lokið. Spilið sem hann hafði á hendi yrði kaupið fyrir þessa för, auralaus maður fær engrar konu.

Magnúsi Árelíusi leið enn verr af að heyra þetta. Hann var ekki viss um að nokkuð yrði aflögu þegar ferðalaginu lyki, ekki meðan hans ambisjón stefndi á Cap Nord. Bárður ætlaði hinsvegar að kaupa potatis og kál vissulega, vissulega kál, fyrir sín laun, og gott ef ekki norskar næpur ef þær væru fáanlegar. Björn gamli í Sauðlauksdal hafði náð þeim stórum og varð frægt og fékk verðlaunapening fyrir og fyrst hann gat þetta þarna í örreytishlíðum vestur á fjörðum hlyti það að lukkast í Dölunum ef bara tíðin myndi skána.

(s. 117-118)