Leitin að fjarskanum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1990
Flokkur: 

Úr bókinni:

Andartaksstund

Andartaksstund
staldra konurnar við
á dyraþrepinu
áður en þær stíga út á dagsbrúnina
eins og þær búist við
að hún bresti
undan þunga þeirra

Þær anda frá sér nóttunni
og fylla lungun lygnum morgni

Svo ganga þær af stað
niður götuna

Fyrr en varir eru þær horfnar
inn í hávaða frystihússins


Sandurinn í fjörunni

Sandurinn í fjörunni er þolinmóður

Á lygnum dögum bíður hann öldunnar
í þurri mýkt
lætur undan korn fyrir korn
leysist upp
í hrynföstu dunandi sogi
skolast aftur í samfellda heild
í votri mýkt
sem leyfir iljum þínum að marka sig
djúpum sporum

Á dögum þjótandi vinda
lætur hann brimið berja sig
í strandlanga skel
sem herðist við lamstur boðanna
uns hann brotnar af eigin hörku

Þegar aftur lygnir
slúpnar hann í mildi
og skolast hægt
yfir spor þín

(44-5)