Kyrralífsmyndir

kyrralífsmyndir
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2020
Flokkur: 

Um bókina

Kyrralífsmyndir er áttunda ljóðabók Lindu Vilhjálmsdóttur. Í bókinni eru ljóð ort í kófinu sem lagðist yfir samfélagið í vetur og vor – þessar vikur og mánuði þegar allt breyttist skyndilega, kunnuglegir hlutir urðu framandi, eðlileg samskipti lögðust nánast af og óttinn náði undirtökum.

Úr bókinni
 

kvikasilfursúlan
í hitamælinum rofnaði

og nú bifast hitinn
hvorki upp né niður
fyrir þrjátíu og átta gráður á selsíus


gekk uppá holtið
og þaðan niður að sjó

mætti miðaldra herramanni
sem hringsólaði kringum kirkjuna
á hjóli

virðulegri frú með skurðstofumaska
við heilsuverndarstöðina

og á sæbrautinni tók ég stóran sveig
framhjá vingjarnlegu gamalmenni
með staf

heilsaði engum


renni augunum 
yfir gangana milli rekkanna
til að tékka á mannaferðum
í nýlenduvörudeild búðarinnar

skýst síðan eins og þjófur
með innkaupalista
milli hillnanna
og ryð vörum ofan í körfuna

við afgreiðsludaman
horfumst tortryggnar í augu
meðan við metum í huganum
bilið á milli okkar

hún með bláa latexhanska
ég með hvíta


hrafnarnir láta sig fjúka
í rokinu

og tjaldurinn spígsporar
í fjöruborðinu nýkominn heim

úti við sjóndeildarhringinn
glittir í varðskip

og á gráleitum himni
sigla íslandsblá ský

það er sporaslóð í sandinum
en varla maður á stangli


eitt 
eilífðar smáljóð

í hæfilegri fjarlægð
sem snertir mannsbörnin

samt