Kvæðabók

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1955
Flokkur: 

Úr Kvæðabók:

Ung stúlka

Ekki ferð þú lengur yfir heiðina
til fundar við mig,
þó býrðu á sama stað, vinur minn,
en þú ferð ekki,
þú hefur gleymt mér.

Nú er vatnið á ís,
og á morgnana
horfi ég oft á reykina frá laugunum
við snæviþakinn bakkann.
Á kvöldin fetar hrímgað stóðið
þyngslalega í tunglsljósinu
hjarnilagða troðninga sem sungu
oft undan hófum gæðinga þinna
er þeir runnu sveittir
hratt beint heim að túnhliðinu
eftir langa ferð.

Nú er vatnið á ís
og þú ferð ekki lengur yfir heiðina.
Mér fannst þú oft
eins og dimmt kalt hús
þar sem ást mín var blátt tunglskin
á héluðum rúðum
og atlot mín
numin eins og þytur vinda
um fannbarða hurð.

Aldrei
brynnir þú hestum þínum framar
í köldum dýjalindum heiðarinnar
á leið til mín;
en stöðugt
sem dulinn og heitur söknuður
og löngun dýpri en þig grunar
ert þú hljóður gestur minn.
Og mörg löng ár
mun vindur blása á fjallvegum og þyrla
sandi yfir týnd bein og döggin
væta júgur kúnna útí sumarhögunum.
Ég mun oft ganga til þvotta austur að laugunum
og oft til næstu bæja um hljóð björt kvöld,
oft til næstu bæja,
og þú munt verða sætleikur
í kossum mínum.

(s. 21-22)

Djákninn á Myrká

Hjalar kul í háu röku sefi,
hvíslað er á bak við lukta skrá;
Nóttin dvínar, dögun skímugrá
daggir les hjá rúðu úr gráum vefi.

Hún opnar skemmu, hreyfir hægt við lásnum;
hey í varpa, golan strýkur þurrt
þekjugras. Hann gengur hljóður burt
girðir Faxa er naslar fram með ásnum,

veifar hendi, hleypir norður bakka,
handan fjalla er roði af morgunsól.
Hann mun ríða Hörgá næstu jól
með hvítan blett
með hvítan blett í hnakka.

(s. 54)