Kúaskítur og norðurljós

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1991
Flokkur: 

Úr Kúaskítur og norðurljós:

Sjálfsmyndir á sýningu

Sál mín var dvergur á dansstað í gær,
hún bankaði vongóð í hné og bauð píunum upp.

Þær hrylltu sig allar og höfnuðu bæklaðri sál.

Sú fékk að húka á barnum
og dansaði ein eftir tvö, ef dans skyldi kalla.

-

Sálin í mér er stelpa sem krotar á veggi.
Útskeif með aflraunalæri og gengur á tám.
Hún er fött í bak, með fituhnúð fyrir brjóst,
og ferðast um búningsklefann á teygjuslappri brók.

Það er blýantsstubbur í krepptum hnefa
og hún bíður færis þegar enginn sér til.

Svona sál getur farið í bófahasar og pissað úti.

En á jólunum heimtar hún slaufu í drengjakoll og syngur
með svo það glittir í dinglandi tönn. Hei-eims um ból.

-

Sál mín er bóndi sem titlar sig fræðimann,
einyrki í skökku koti á kaldrana.

Hann rýnir hokinn í kámuga skræðu
við grútartýru meðan sjónin endist.

Hann uppdagar meinlega villu hér og hvar
svo úr verður mörg og merkileg ritgerð

- þá blómstrar arfinn og beljan hímir í leku fjósi.

Já sál mín er fræðimaður sem sveitungar kalla búskussa.

-

Sál mín er fakír á bretti.
Skælbrosir götótt á fjölförnum torgum
hafandi gengið á glóðum og étið eld,
þessi hugaða misskilda sál.

Og vegfarendur kasta í hana krónu –
en hún þarf ekki krónu heldur handslökkvitæki
og svolitla hjálp við að naglhreinsa.

-

Sál minni er lokið í dag, allri lokið,
eins og skógarhöggsmanni við hinsta stofninn.

-

Sál mín er á launum við að lýsa veðri
og síma það suður eftir vissum reglum.

En grunsemdir vakna í höfuðstöðvum
þegar veðurlýsing er þrumur og eldingar
í tvo sólarhringa samfleytt.

Svo átta menn sig: nú er sálin á yfirsnúning
og héraðslæknir er settur í málið.

-

Sál mín er stúlka í vist.
Hún þreyr þorra og góu í skammadrífu
og hrærist ei þótt húsbóndinn vilji inn þegar náttar.
Setur farg fyrir dyr og les bænir á stífuðum náttkjól.

Ekki eitt einasta tár.

Hún ber feiti á lúnar hendur
og afræður loks að fara heim þegar vorar, í dalinn.

-

Sál minni er allri lokið
(eins og áður sagði).

Ef hún fengi að ráða væri hún reglulega glöð
eins og þægur vistmaður á afmælinu sínu.

-

Nú er sál mín eina íslenska skottan
sem eftir lifir, ef líf er þá orðið.

Hún leggst á búfé og ærir eyfirska smala.

Það er engum skemmt þegar skotta hneggjar
og rykkist um dalinn með sauðakrof næst sér.

Staðráðin í að ganga aftur og aftur.

-

Sál mín er fallinn engill
unglingsrytja með fótinn í gifsi
og glamrar hálfur á lemstraða lútu.

-

Sál mín er fangi í dýblissu dvergsins
saklaus dæmd til lífstíðarvistar.