Klink

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1995
Flokkur: 

Úr Klinki:

Frá heimsþingi esperantista

Láttu þér ekki bregða
þótt ég sendi þér þessar línur frá
tólfta þingi Esperanto-
sambandsins. Hér stendur allt í blóma, náttúran
bókstaflega suðar af kæti, og ég kom
sjálfum mér á óvart
morguninn eftir setningu
þingsins; ég kramdi litla flugu
með vísifingri og þumli
og þeirri hugmynd laust niður í koll mér
að leggja mér hræ hennar
til munns. Þú ímyndar þér eflaust að
hér ríki stríðsástand, enginn sé sammála
um ekki neitt, og að
pappírsflóðið í salarkynnunum sé slíkt
að leggi ég sjóngleraugun frá mér sé
þegar í stað búið að hylja þau
með glænýrri reglugerð um breytingar á fall-
beygingu lýsingarorða.
Þetta er reyndar rétt hjá þér, svona er
ástandið á tólfta þinginu, en það er ekki þaðan
sem ég sendi þér þessar línur.
Þetta með náttúruna og suðið í henni er
auðvitað uppspuni frá rótum; ég er
staddur svo að segja í næsta
húsi við þig, þú veist:
að lokum munum við bæði deyja, og það eina
sem skilur okkur að
er prentsmiðjan vestanmegin við húsið mitt,
barnaleikvöllurinn,
Klapparstígurinn,
miðbærinn eins og hann leggur sig,
ökuleiðin að Seltjarnarnesi og
Atlantshafið. Atlantshafið með viðsjárverða
strauma sína og samviskubitið
yfir að hafa gleypt svo marga heilbrigða
og efnilega unga menn
eins og mig. Nú er ég ekki viss um
að þessi kveðja berist þér
á því skeiði ævinnar sem ég
kysi, en þegar hún berst þér
inn um bréfalúguna - ég veit að hún á eftir
að beyglast í mjórri rifunni -
skaltu leggja hana á eldhúsborðið og slétta
úr henni. Eins og sjómaðurinn sléttir úr seglinu
eftir að hann velur sér ákvörðunarstað.