Klækir kamelljónsins

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1991
Flokkur: 

Úr Klækjum kamelljónsins:

 Dóttirin var lágvaxin, grönn og fríð. Hún var með ljósgullið hár sem náði niður á bak og var bundið saman í stert. Augun voru grá og andlitið kringluleitt. Selmu fannst hún virkilega sæt. Hún var eitthvað svo sakleysisleg að sjá og dálítið barnaleg. Selma hugsaði með sér að það hlyti að vera Oskar sem hefði heyrt getið um þau ef þetta var þá ekki bara rugl. Hún ákvað að spyrja hann um það seinna.
 Frá Noregi komu einnig hjón á miðjum aldri. Fljótt á litið var hægt að ímynda sér að þau væru rúmlega fertug en það var erfitt að áætla aldur þeirra. Ósköp venjulegt og viðfelldið fólk. Konan dálítið búttuð með permanent í brúnu hárinu. Hún var með gleraugu og viðkunnanlegt andlitið var glettnislegt. Maðurinn var alvörugefnari á svip en brosti þó breitt þegar Selma bauð hann velkominn til landsins. Þau sögðust heita Johann og Karla og eiga bóndabýli í Norður-Noregi sem börnin þeirra önnuðust meðan þau væru að ferðast. Þau voru kát og sögðu að þetta væri fyrsta fríið þeirra í tuttugu ár.
 Í Norðmannahópnum ráku svo lestina systkini sem Selma áleit að væru á aldur við hana og Sigga. Þau heilsuðu hlýlega og sögðust vera komin í frí eftir annasaman vetur í ströngum skóla. Selma virti þau fyrir sér. Þau voru í dýrum fötum, stúlkan var of mikið máluð fyrir hennar smekk og allt fas þeirra bar vott um allsnægtir. Þau sögðust heita Margrit og Klaus. Ekki var hægt að sjá að þau væru systkini nema þá helst af hörundslitnum. Þau voru engan veginn norræn í útliti. Dökkhærð með dökka húð. Klaus var myndarlegri. Hann var með móbrún augu og þykkar varir. Hann brosti fallega til Selmu og henni fannst eins og hún væri að horfa á kvikmyndastjörnu af breiðtjaldi. Klaus var í meðallagi hár og systir hans litlu minni. Hún var myndarleg og dökkt hárið glansaði. Selmu fannst hún vera eins og Öskubuska við hlið þessarar stúlku. Hún var vissulega augnayndi. En þau voru elskuleg og sögðust fagna því að vera komin til Íslands.
 Svíarnir þrír voru ekki síður áhugaverðir menn. Þeir komu hlæjandi og kátir á móti fólkinu og það var sýnilegt að þeir höfðu fengið sér eitthvað að drekka á leiðinni. Þetta voru menn á milli þrítugs og fertugs. Þeir höfðu aldrei sést fyrr en í flugvélinni en virtust orðnir mestu mátar. Þeir heilsuðu með virktum og sögðust heita Ole, Lars, og Simon.
 Á hæla þeim kom lítil, grönn, hörundsdökk stúlka. Selma gat sér þess til að hún væri varla eldri en tvítug. Hún sagði ekkert en stóð hljóðlát fyrir aftan hlægjandi Svíana. Loks var eins og þeir myndu eftir henni. Simon dró hana til sín.
 - Þetta er konan mín. Hún er frá Filippseyjum og heitir Dij. Ég kalla hana samt Rose.
 Stúlkan sagði ekkert en brosti kurteislega. Selma bauð stúlkuna velkomna en hugsaði Simoni þegjandi þörfina. Hún fékk strax á tilfinninguna að þessi unga kona væri eins og viljalaust verkfæri í höndum eiginmannsins. Hann var áreiðanlega einn af þessum körlum sem hafa fengið sér hörundsdökka ambátt en ekki eiginkonu. Selmu langaði alltaf mest til að rota karla sem héldu að þeir væru merkilegri af því að þeir væru með tippi. Simon virtist vera einn af þeim og það var ekki annað að sjá en konan hans léti sér það vel lynda. Selma varð strax ákveðin í að kynnast henni betur. Hana langaði til að sýna henni hvernig íslenskar stúlkur hefðu það.
 Páll stóð við hlið Selmu. Hann lagði varirnar að eyra henni og hvíslaði:
 - Ekki vildi ég heita Dí og vera kölluð Rós.
 Selmu langaði mest til að skella upp úr en henni tókst þó að halda andlitinu.

(s. 36-37)