Jöklaleikhúsið

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2001
Flokkur: 

Um bókina:

Leikfélagið á Papeyri ákveður að setja upp Kirsuberjagarðinn eftir Tsjekhov með karlmenn í öllum hlutverkum. Þegar hinn ókrýndi bæjarhöfðingi og athafnamaður Vatnar Jökull fær veður af þessu tekur hann til óspilltra málanna, lætur þýða verkið á ný og byggir yfir sýninguna heilt leikhús, Jöklaleikhúsið, á fallegasta útsýnisstað sveitarfélagsins. Hvíslarinn Beatrís leiðir lesandann í gegnum söguna en inn í atburðarásina fléttast makalausar lýsingar af daglegu amstri bæjarbúa, logandi ástum og miklum örlögum.

Úr Jöklaleikhúsinu:

ÞORRABLÓT MEÐ DÝRA. DAUÐI SNATA UPPLÝSTUR OG FLEIRA

Við Helmut hálfkviðum fyrir að taka Dýra með á þorrablótið í Hrolllaugarbúð, þótt það væri næstum fullskipað í hlutverk. Þessi gleðskapur á það til að taka óvænta og ekki alltaf gleðilega stefnu undir lokin og stundum fyrr. Það var háskalegt í venjulegu ári að taka með sér aðskotadýr. Núna voru þar að auki breyttar forsendur í bænum, Kirsuberjagarður og allt sem honum fylgdi, og svo hinn óvænti sonur bæjarhöfðingjans sem sveif einhvern veginn yfir vötnum og raskaði hlutföllum á himni og jörðu þótt hann væri svona nýr.
Ég fékk hland fyrir hjartað um leið og ég steig innúr dyrum á sparibúinni Hrolllaugarbúð og vel lyktandi af kæstum hákarli og dýrum ilmvötnum. Það var svakaleg spenna í lofti, sem hinir næmu þreifarar Dýra skynjuðu eins og skot. Hann stóð stjarfur í fatahenginu í Once Upon a Time in the West frakkanum og sagði: ZZZ, vá, bandandi fingrum til marks um heiftarlega strauma á staðnum.
Vladi súrraði um fatahengið meðan við vorum að taka af okkur. Hann varnaði mér inngöngu í salinn, gulmataði á mig augum og sagði: Mig á eftir að iðra þess arna beisklega. Að hafa skuldbundið sig til að afplána enn eitt árið og annað í viðbót, meðgöngutíma eftir meðgöngutíma á þessari voðalegu jörð. Til þess að leika asna og apa. Ó vei. Epíkhodov, óþörf persóna af skaparans hálfu. Eins og greyið sem leikur hann...
Að svo búnu færði hann sig úr gangvegi og gekk inn eftir salnum með furðulegu handapati sem leit út frá okkur séð eins og hann ætti í kappræðum við ósýnilega förunauta beggja vegna og væri líklega að sannfæra þá um að rugludallurinn Epíkhodov væri óþarfur maður.
Við komum okkur fyrir á borðinu hjá Vatnari Jökli, Ossa og Siggu, Huga og Oddnýju, Ófeigi og Telmu. Lísa var ekki og heldur ekki vinnukonan. Vatnar Jökull og Hugi voru þegar orðnir vel fullir. Þeir sátu saman og skáluðu án afláts í eigin heimi, sem engir fleiri áttu aðgang að í bili. Þó brosti Hugi einu sinni til mín á þessu stigi málsins, hæga brosinu sínu, sem er það fallegasta í heimi, og ég brosti á móti. Ekkert fer framhjá Dýra, hann gaf mér olnbogaskot og spurði:
Hvað var þetta góða?
Það sem forvitnum kemur ekki við, svaraði ég.
Forvitinn veit og forvitinn skilur, sönglaði Dýri, fyllri en ég hélt, ég sem hafði tekið honum strangan vara fyrir að þjófstarta þorrablótinu.

(127-128)