Jóakim

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1985

Joakim eftir Tormod Haugen, í þýðingu Njarðar.

Úr bókinni:

- Þú skalt ekki taka það nærri þér, sagði mamma seinna um daginn, þegar hann sagði frá Söru og Karlsen.

- Fólk segir alls kyns vitleysu. Þetta er ekki alltaf eins auðvelt og Karlsen segir. Það dugir ekki alltaf að bíta á ajxlinn. Pabbi þinn þarf að fá hjálp, Jóakim, alveg sama hvað aðrir segja. Fólk veit ekkert hvað það er að tala um. Það er eins og ekki sé leyfilegt að vera með taugasjúkdóm.

Mamma var reið. Jóakim heyrði það á fyrirganginum þegar hún ruddi diskunum og hnífapörunum í uppþvottafatið.

- Æfa fótbolta, fnæsti hún, - já, þakka þér kærlega fyrir! Taka sig saman í andlitinu - það getur Karlsen sjálfur gert!

- Það er svo andstyggilegt að heyra hann segja þetta, sagði Jóakim. - Honum finnst að pabbi sé vitlaus.

- Það er Karlsen sem er vitlaus, sagði mamma reiðilega, - og hann ætti ekki að láta svona lagað út úr sér. Það er skammarlegt af honum.

- En ef öllum finnst þetta, sagði Jóakim, - ja, þá get ég aldrei framar talað við nokkurn mann.

- Það finnst þetta sjálfsagt ýmsum, svaraði mamma, - það geturðu verið viss um. Við verðum að reyna að la´ta það ekki á okkur fá. Pabbi þinn er hvorki vitlaus né skrítinn. Og það er ekkert hættulegt að tala við annað fólk. Mér finnst reyndar að þú ættir að fara strax út og tala við einhvern, svo að þú getur séð að það er ekkert erfitt.

Mamma talaði hratt, og hún var enn svo reið að röddin titraði.

- Þetta eru þokkalegir nágrannar, sagði hún við sjálfa sig. Og við Jóakim sagði hún: - Komdu þér út! og þú mátt ekki kmoa aftur fyrr en þú ert búinn að tala við að minnsta kosti þrjá! Og hananú!

Hún reyndi að brosa þegar hún sagði þetta, en það var ekkert raunverulegt bros.

(30-1)