Íslenskir kóngar

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2012
Flokkur: 


Um Íslenska kónga:Knudsenarnir í Tangavík eru skrautleg og flokksholl ætt með dugandi útgerðarmönnum, ættræknum bankastjórum, drykkfelldum sjoppueigendum, ástsælum alþingismönnum, skapmiklum fegurðardrottningum og jafnvel elskulegum þorpshálfvitum. Saga þeirra er samofin sögu alþýðunnar því hana hafa þeir ráðskast með frá ómunatíð. Sá sem segir söguna er gamall nemandi Arnfinns Knudsen, eins glæsilegasta fulltrúa ættarinnar frá upphafi.Úr Íslenskum kóngum:Einar Knudsen var það sem kallað er þorpsfífl. Hann var sonur Ástvalds Knudsen og Júlíu en fæddur inn í hjónaband Jeggvans Færeyings og Júlíu, sem aldrei var kölluð annað en Júlía í Klöpp eða bara Júlia. Jeggvan Færeyingur var nú ekki að æsa sig yfir smámunum einsog einu barni til eða frá. Hann hefndi sín með því að sofa hjá Ester, systur Júlíu, og eignast með henni tvíbura en þeim systrum kom eki vel saman. Sagt var að þeim fylgdi hvorri sinn draugurinn og að draugunum kæmi heldur ekki vel saman. Það var jafnvel hlýrra á milli Jeggvans Færeyings og Einars Knudsen en á milli hans og barnanna sem hann átti sjálfur með Júlíu.Einar Knudsen var eina þorpsfíflið af Knudsenættinni í hinni hefðbundnu merkingu orðsins og það vildu ekki allir Knudsenarnir viðurkenna Einar sem Knudsen. Það var ekki bara af því hann varð til í framhjáhaldi heldur líka af því að hann var öðruvísi en aðrir. Einar Knudsen var vangefinn en féll vel inn í umhverfið. Hann var þorpsfífl en það orð var notað um greindarskerta einstaklinga sem þrifust oft ágætlega í samfélaginu áður fyrr en eru nú að mestu horfnir. Þeir hafa orðið stofnunum að bráð, sumir segja vegna hagkvæmni, aðrir segja vegna þeirrar mannvonsku sem fylgir hagkvæmninni.Franski fræðimaðurinn Michel Foucault hefur skrifað um þetta lærðar bækur sem andstæðingar hans segja að séu ekkert svo lærðar. Sú hugsun sem Foucault orðar í löngu máli er að nokkru leyti sú sama og hjá Íslendingum þegar þeir tala um kynlega kvisti, menn sem ekki binda bagga sína sömu hnútum og samferðamennirnir en hafa engu að síður hlutverki að gegna. Þeir passa inn í samfélagið. Ég nefni þetta því þorpsfífl eru oft einstaklingar sem gefa lífinu lit og tímanum gildi. Þeir verða minning bæjarins eða þorpsins. Þeir tilheyra söguskeiði þegar meira pláss var fyrir frávik. Nú á tímum á allt að vera fjálsara, víðsýnna, opnara og betra en samt eru þeir sem eru öðruvísi látnir hverfa og lokaðir inn á stofnunum. Það er jafnvel hægt að sjá þá fyrir í móðurkviði með háþróuðum tækjum og kippa þeim burt.Áður gátu bæjarfélög og sveitarfélög ráðið skrýtna menn til starfa. Nú er slík starfsemi á höndum einkaaðila og þá leyfast engin frávik. Samt er alltaf tap á starfseminni. Einn af lærisveinum Michels Foucault hefur haldið því fram að svonefndar ljóskur hafi að einhverju leyti leyst þorpsfíflin af hólmi og séu svar nútímasamfélags við þeim, það er að segja samfélagsþegnar sem hent er gaman að, en nú gerist það í gegnum fjölmiðla og gamanið hefur yfir sér kynferðislegan blæ og á sér stað í efri lögum samfélagsins svo almenningur fær á tilfinninguna að auður þeirra sé eftirsókn eftir vindi.Einar Knudsen hljóp um götur Tangavíkur með potta og pönnur löngu áður en hin svonefnda búsáhaldabylting átti sér stað. Hann var heldur ekki að mótmæla neinu. Hann var hamingjan uppmáluð. Það hringlaði í pottunum og í þeim heyrðist mikill hávaði. Einar Knudsen barði pönnum og pottum saman og stundum var hann með vekjaraklukkur ofan í pottunum. Hann elskaði vekjaraklukkur og safnaði þeim. Hann trekkti klukkurnar up alveg einsog fjöðrin þoldi, en sleppti síðan rofunum og þær hringdu allar í einu. Allir í Tangavík vissu hvar Einar Knudsen var staddur þegar klukkurnar hringdu og stundum elti hann trúboðana sem fóru ámilli húsa og dreifðu bæklingum og hann gat líkt eftir fuglum og skipum og bátum og bílum. Hann blandaði sér stundum í mávagerið og gargaði einsog þeir, því Einar Knudsen skildi hvað mávarnir voru að segja og þeir skildu hann.(58-9)