Í flæðarmálinu

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1988
Flokkur: 

Úr bókinni

Framundan fjöruborðinu sefur fjörðurinn í sólskininu. Það er að falla út. Efst í fjörunni eru ávalir steinarnir orðnir þurrir, og þeir eru undarlega stamir og hlýir viðkomu. Fara vel í hendi. Áður en varir þýtur steinninn lárétt í loftinu. Spegill fjarðarins brotnar snöggt er valan snertir hann í fyrsta sinn, síðan aftur og aftur og myndar örsmáa hringa sem stækka án afláts, þrjá, fjóra fimm, sex, sjö ... Fyrst er langt á milli þeirra, en svo styttist það í sífellu. Það er ekki lengur hægt að telja þá né greina þá, og steinninn rennir sér fótskrifðu síðasta spölinn, uns hann missir hraðann og gefst upp, sekkur til botns. Hann kemst aldrei upp á malarkambinn aftur.

Þótt fjörðurinn sofi er hann samt lifandi. Hann bærir á sér mjúkum ávölum hreifingum, og gætir þess að rjúfa ekki kyrrð yfirborðsins. Þess vegna sést þessi hreyfing hvergi nema þar sem sjórinn mætir steininum í fjörunni. Þar heyrist hún líka sem lágvært hvísl sem vekur syfjulega vellíðan. Og lognið er svo mikið að snarbratt fjallið gegnt fjörunni stenudr andfætis sjálfu sér í bláma sævarins.

Ofan við þessa einkennilegu markalínu þar sem landið hættir að vera land og verður sjór, er dökk rák svo langt sem augað eygir. Þar eru steinarnir enn votir, og það leggur frá þeim svala ef þeir eru snertir. Af þessari rák sér drengurinn strax að það er útfall, þótt hann sé ekki farinn að skynja það ósjálfrátt.

Fjörðurinn horfir ákaflega hægt undan fjörunni, en þó jafnt og þétt. Það er eins og hann falli saman. Hann er eins og barmur konu sem andar frá sér. Bráðum rís upp úr vætunni brún þangflesja. Þá er fjaran orðin ljót. Svo er líka ksreipt þarna og ógeðfellt að detta ofan í þetta slímkennda og blauta þang. Aftur á móti eru á því blöðrur sem hægt er að sprengja með smelli.

En í logninu er fjörðurinn ákaflega freistandi. Einkum þó þegar það er hálffallið út eða flóð. Drengurinn féll snemma fyrir þessari freistingu. Hann var ekki nema tveggja ára gamall þegar hann fór fyrst á sjó, og hugðist sigra hann fótgangandi eins og Kristur forðum. Þá var hann ekki búinn að gera sér grein fyrir markalínu láðs og lagar. Hann var kominn upp undir hendur þegar faðir hans þreif hann tveim höndum og setti hann á land, og hristi drenginn eins og hann héldi að hann gengi í svefni. Þetta var þó langt frá því að vera í síðasta sinn sem þurfti að draga drenginn úr sjó.

(7-8)