Horfðu á mig

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2009
Flokkur: 

Um bókina:

Þóra Guðmundsdóttir lögmaður reynir að fá endurupptekið mál fatlaðs manns sem situr inni á Sogni fyrir að kveikja í sambýli með hörmulegum afleiðingum. Á sama tíma sækir látin stúlka í að standa við fyrirheit um að passa lítinn dreng.

Úr Horfðu á mig:

Sambýlið stóð við enda byggðarinnar, ef byggð skyldi kalla. Malbikaðar götur lágu milli auðra lóða sem biðu þess að á þeim risu hús. Við hver gatnamótin af öðrum minntu götuskilti óþægilega á brostnar vonir skipuleggjenda svæðisins. Þess yrði langt að bíða að hamingjusamar fjölskyldur ækju um Mímisbrunn, Friggjarbrunn eða aðra brunna, heim í nýju húsin sín. Ef menn hugðu á húsbyggingar urðu þeir annaðhvort að hafa mikið reiðufé á lausu eða aðgang að hagstæðum lánum en hvorugu var að heilsa nú. Engu var líkara en innantómar skýjaborgir þjóðarinnar hefðu fallið af himnum ofan og lent þarna í jaðri borgarinnar til áminningar um að hægar skyldi fara í sakirnar næst. Hringtorg sem áttu að greiða fyrir umferð gerðu nú ekki annað en að flækja akstur þeirra fáu sem villtust inn í þessa auðu byggð. Þóra starði út um gluggann en Matthew sat undir stýri jafn gáttaður og hún á hverfinu. Í einni beygjunni birtist stakt hús við enda botnlanga. Í stað þess að draga úr óraunveruleikatilfinningunni ýttu þessu einmanalegu híbýli einungis undir hana.

“Ætli fólkið sem varð eldsins vart búi þarna?” Matthew benti með höfðinu í áttina að húsinu sem hvarf sjónum þeirra þegar þau óku út úr hringtorginu. Þóra hafði sagt honum undan og ofan af málinu áður en hún bað hann að koma með sér í skoðunarferðina. Henni fannst þægilegra að hafa hann með í för, hér rataði hún ekkert, síst af öllu í myrkri og dálítilli snjókomu. Með þessu móti gat hún einbeitt sér að því að finna sambýlið án þess að þurfa að hafa áhyggjur af akstrinum. Auk þess var skemmtilegra að hafa félagsskapinn.

“Sennilega,” svaraði Þóra. “Ég man ekki götuheitið en það er fáum öðrum húsum til að dreifa.”

“Ætlarðu að banka upá?” Rödd hans bar með sér að hann vonaði innilega ekki.

“Nei. Það var ekkert óljóst í frásögn þeirra eða nokkuð sem skipti máli í niðurstöðu dómsins. Þau sáu engan á ferli, heyrðu ekkert, fóru einfaldlega að sofa og vöknuðu svo við brunalykt þegar allt var orðið um seinan. Hver veit nema það komi eitthvað í ljós sem breytir þessari skoðun minni en ég held að ég hafi ekkert við þau að ræða.”

(s. 57-58)