Höll minninganna

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2001
Flokkur: 

Úr Höll minninganna:

Tvíburinn hættir að æmta. Ég heyri að Katrín er enn að gæla við hann. Ég heyri ekki í þér en finn samt fyrir návist þinni. Það snarkar í eldinum og ég geng á móti birtunni úr stofunni; hún er gul og hlý og ég stansa til að hugsa um hana og um Katrínu sem er uppi að hjala við barnið og um hangikjötsilminn og sporin sem ég skildi eftir í snjónum á leiðinni upp að húsinu.
 Ég er í dökkum jakkafötum því ég er að koma af skrifstofunni. Ég er nýbúinn að flytja mig um set, var í Austurstræti en er núna kominn í Hafnarstræti. Ég er ekki nema fáeinar mínútur að ganga heim og get þess vegna leyft mér að drolla á leiðinni, koma við á höfninni, finna lykt af þangi og bátum sem koma af úthafi.
 Allt í einu finnast mér jakkafötin einhvern veginn stinga í stúf og er að því kominn að fara upp að skipta um föt þegar mér heyrist þú segja nafn mitt einhvers staðar í stofunum.
 Ég geng á móti ljósinu og strýk um leið kusk af annarri buxnaskálminni.
 Þú stendur við gluggann í stofunni og horfir út í bakgarðinn. Ég geng til þín, legg höndina á öxl þér og kyssi þig á kinnina. Þú bendir með höfðinu út um gluggann og þá sé ég að þú hefur verið að fylgjast með Einari og Maríu sem eru að renna sér á sleða niður brekkuna fjærst húsinu. Þetta er ekki stór hóll, en litlir fætur þurfa samt að hafa fyrir því að klöngrast upp hann í snjónum með sleða í eftirdragi.
 Þú nýtur þess að fylgjast með því hvað Einar er systur sinni hjálplegur. Hann er nýorðinn átta ára, hún á sjötta ári. Hann tosar hana með sér upp á hólinn, dregur sleðann á eftir sér með hinni hendinni, heldur honum kyrrum meðan hún sest á hann, ýtir henni af stað, mjúklega svo að hún verði ekki hrædd. Hleypur síðan á eftir henni niður brekkuna og leiðir hana sama spöl til baka.
 Við stöndum kyrr við gluggann, gul birtan hlý á bak við okkur, hvítt tunglið yfir garðinum. Við höldumst í hendur. Allt í einu er eins og þau finni það á sér að það sé verið að horfa á þau. Þau nema staðar á leiðinni upp hólinn og líta um öxl í átt að húsinu, veifa þegar þau sjá okkur. Síðan koma þau hlaupandi til okkar.

(s. 112-113)