Hjartað býr enn í helli sínum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1982
Flokkur: 

Endurskoðuð útgáfa: JPV 2002.

Úr Hjartað býr enn í helli sínum:

Guð, þú veist það, djöfullinn þinn, jafn vel og ég sjálfur og bankarnir að ég geymi hvergi fé á leynireikningi. Dóra og þú, þið misskiljið mig hrapallega, guð, ef þið haldið virkilega, nema þið ljúgið, að ég steli undan af kaupinu mínu og eyði því í kvenfólk. Hvar eru hórur hér? Hvenær fengi ég tækifæri til að eyða eyri í aukakonu? Ef maður leigði sér herbergi kæmist það strax upp í smáborg eins og þessari þar sem allir njósna um alla. Framhjáhaldi eru takmörk sett sökum smæðar borgarinnar þótt löngunin sé meiri hér og þörfin en í milljónaborg. Hér í þessum þrönga músarholuheimi. Ég sóa síst meira fé en Gunni til dæmis, í áfengi og tóbak. Guð, þú veist líka að ég fer strax að atast í Dóru verði ég drukkinn, en það er ósjálfrátt og merkir ekki neitt. Þið eruð bæði helvítis fábjánar, hún og þú, ef þið haldið að ég leyni ykkur ýmsu.

Eftir ávarpið létti manninum, en honum hafði hitnað í hamsi, og hann geiflaði sig ógurlega á ný og hugsaði: „Nei, svona bænir ná engri átt. Þetta er eymingjaleg framkoma og guð væri alger asni ef hann tæki mark á mér.

Eftir þetta var eymd mannsins alger, hann gat ekki trúað neinum fyrir því sem honum bjó í brjósti, bæði vegna þess að þar ríkti eintómur óskapnaður sem var á sífelldri hreyfingu og breyttist stöðugt, og svo trúði hann hvorki ákaft né innilega á neitt. Maðurinn starði vanmáttugur og lítill fram fyrir sig á hina auðu veggi, hann gat ekki rætt við guð og fyllt tómið í kringum sig og kom ekki orðum að eymd sinni af því orðin urðu ósönn og óeðlileg og fölsk; en allar lærðar bænir til guðs eru fastmótaðar og hafa fæðst hjá öðrum og í annars konar huga en hans sjálfs, á löngu liðnum og óskyldum tímum, og þær krefjast þess að þær séu settar fram á skipulegan hátt og oft af ósannri undirgefni. En maðurinn þekkti af reynslu að þegar örvæntingin grípur huga fólks og guðs er kannski þörf, þá liðast öll form sundur og hin sanna bæn ætti því að vera sundurlaust taut og bull. Af þessu þráir hinn ráðlausi að geta leitað andartak til skapara og skipuleggjara lífsins, svo hann komi einhverri heillegri mynd á ólguna í þeim huga sem borinn er villuráfandi og ruglaður fyrir hann. Þá líkist hugsanaólgan helst mislitri bandaflækju úr ótal hespum sem hinn hrjáði kann ekki að vinda saman í hnykil, enda finnur titrandi hugur hans hvergi enda. Einmitt þess vegna fer sá sem biður í raun og sannleika ekki með bæn í venjulegum skilningi heldur með rugl, en hinn sem biður af ráðnum huga og með rólegri hugsun er gæddur ísmeygilegri ágirnd og heimtar gjafir af guði án þess hann gefi nokkuð sjálfur í staðinn nema kannski hégómleg lærð orð og einskisnýt loforð.

(s. 87 - 88)