Hjálp!

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2014
Flokkur: 

Um Hjálp!:

Fimm unglingar aka inn í myrkrið með gps-hnit og óljósa leiðarlýsingu sem á að vísa þeim á heita laug úti í óbyggðum. Tunglið breiðir drungalega birtu yfir landslagið og engu þeirra er alveg rótt þegar þau stíga út úr bílnum. Þó hafa þau ekki hugmynd um hvaða ógnir bíða þeirra.

Úr Hjálp!:

Föstudagur 24. október 2014 – kl. 23:19

Kesang fór með Móeyju Rögn í lindina og þær lofuðu að svamla ekki lengur en í tíu mínútur. Hin kusu að halda á sér hita á bakkanum en Olga leit á klukkuna, reiðubúin að telja niður, kulsækin og komin með heimþrá. Samt freistaði það hennar að hoppa aftur ofan í hlýtt vatnið.

„Ég nenni ekki að hátta mig aftur til að bleyta mig aftur til að þurrka mér aftur til að klæða mig aftur,“ sagði hún tvístígandi. „Samt langar mig það líka að skríða undir sæng. Af hverju er ekkert netsamband? Við gleymdum að taka myndir.“

„Alveg róleg,“ sagði Smári, „nóttin er ung og þú líka.“

Móey fór á bólakaf og buslaði brosmild eins og hún væri umvafin vatni í fyrsta skipti en vitanlega voru það hinar ævintýralegu aðstæður sem kölluðu fram kátínuna. Að tíu mínútum og þrettán sekúndum liðnum lét Olga vita að tíminn væri útrunninn. Hún tók mynd af pottverjunum.

„Bara oggulengur,“ söng í telpunni.

„Nei,“ þrumaði Olga. „Tröllin taka þig ef þú ferð ekki heim fyrir tólf af því þá vakna allar viðbjóðslegu ófreskjurnar sem búa í fjöllunum og …“

„Engar draugasögur, Olga,“ greip Matthildur fram í fyrir henni. „Hún er sex ára.“

„Við gleymdum að taka með okkur nesti,“ sagði Neptúnus sem fann til svengdar. „Hvernig gátum við klikkað á því?“

„Skortur á skipulagsleysi,“ sagði Matthildur og stjakaði við honum. Olga leit á hana og muldraði sömu setningu fyrir munni sér í tvígang, hristi síðan höfuðið.

„Hoppaðu inn í handklæðið,“ sagði Neptúnus og gekk að bakkanum með handklæði strekkt á milli handanna. „Það er pínu rakt en ég hefði tekið tvö ef ég hefði vitað að það yrði laumufarþegi með okkur.“

(25-6)