Hinn ósýnilegi

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1982

Um þýðinguna

Skáldsagan Garabombo, el invisible eftir Manuel Scorza í þýðingu Ingibjargar.

Á ný hrífur höfundurinn okkur með sér upp til hinna snauðu fjallaþorpa indíánanna í ættlandi sínu. Þar berst bændafólkið í örvæntingu við harðvítugt og gegndarlaust arðrán landeigenda. Í forustu í þessari baráttu er Garabombo sem hefur gert sjálfan sig ósýnilegan vegna þess hve hann skýtur mönnum miklum skelk í bringu. Að baki honum getur að líta hóp af fjölskrúðugustu manngerðum. Uppreisn þessa fólks gegn drottnurum sínum ber vott um hugdirfð og þrautseigju, en viðbrögð yfirvaldanna lýsa skefjalausri grimmd og harðýðgi. Barátta fólksins fyrir lífi sínu og lífsskilyrðum verður ótrúlega hörð og blóði drifin. Hinn ósýnilegi er raunsönn lýsing á þjóðfélagsaðstæðum og pólitískri baráttu í Suður-Ameríku. Það fólk sem hér segir frá var til, þar á meðal foringinn Garabombo. Samt er þetta ekki raunsæissaga í venjulegum skilningi, heldur í ríkum mæli gædd andrúmslofti ævintýra og hugarflugs.

Úr Hinum ósýnilega

Á götuhorninu stóðu Chinche-búar, miður sín af angist. Sáu þeir hann eða sáu þeir hann ekki? Garabombo lét sem hann sæi ekki vélbyssu sem komið hafði verið fyrir á þrífæti, og stefndi í átt til herflokksins sem stóð fyrir framan stöðina (þjóðvarðliðarnir voru svo aumir að þeir gerðu ekki annað en sækja vatn handa hestum stormsveitarmanna); hann gekk yfir götuna. Sáu þeir hann eða sáu þeir hann ekki? Jafnvel mágur hans, Melecio Cuellar, gróf neglurnar í sveitta lófa sína. Kæmist Garabombo inn á stöðina og aftur þaðan heill á húfi? Eða þóttust verðirnir ekki sjá hvað hann var ósvífinn, eingöngu til að geta hleypt af með góðri samvisku? Konan hans, Amalía Cuellar, sem síst af öllum hafði ástæðu til að efast, þrýsti bláu sjali að munni sér. “Nú stígur hann upp á gangstéttina”, sagði Amador hinn brosmildi, alveg að óþörfu. Voru þeir að horfa á hann eða ekki? Var Garabombo að ganga inn um dyr stöðvarinnar eða gekk hann um dyr dauðans? Einn varðanna lyfti vélbyssu sinni. Mannfjöldinn andvarpaði. Garabombo nam staðar, líkur styttu sem fyrr. Í dyrunum birtist grænn frakki og freknótt andlit Bodenaco majórs. Garabombo þrýsti sér upp að húsveggnum. Guillermo slátrari dró upp sígarettupakka með óþolandi hægð og kveikti sér í sígarettu.

(s. 7-8)