Heklugjá

heklugjá
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2018
Flokkur: 

Um bókina

Rithöfundur gengur daglega yfir Skólavörðuholtið með hundinn sinn, á leið á Þjóðskjalasafnið þar sem hann les sér til um listamanninn og sérvitringinn Karl Dunganon. Á safninu vinnur stúlka með eldrautt hár og sægræn augu sem vekur ekki minni áhuga en gömul skjöl – en það er mikið verk að kynnast manneskju.

Heklugjá – leiðarvísir að eldinum er saga um leit að hamingjunni. Leikar berast yfir höf og lönd og aldir; úr djúpi sögunnar birtast sífellt nýjar persónur en í iðrum jarðar kraumar eilífur eldur sem brýst upp með látum. 

úr bókinni

Rúllustigarnir leiddu okkur djúpt í jörðu, við keyptum miða í lúgu því sjálfsalarnir voru allir bilaðir, fundum réttu lestina og stigum um borð. Þetta var ný og tómleg lest með ævintýralega ljótum plastinnréttingum, skærbláum og skærgulum. Það var ekkert að sjá nema þessar viðurstyggilegu innréttingar því við vorum neðajarðar. Kannski að einhver skandinavísk glæpasaga gæti átt sér stað hér? sagði Hekla, þetta er engin Agatha Christie. Við fórum út á stöð sem hét Kazlicesme, þar endaði lestin. Ég sá að við vorum komin utangarðs, þarna blasti múrinn við, miklu stærri en ég bjóst við, ég gat séð glitta í Gullvörtu sem ég kannaðist við af mynd í leiðarvísinum okkar, og ofan við hana turnana sjö á Sjöturnavirkinu, ósigrandi virki með þreföldum múr og síki. Og í þá átt héldum við af stað fótgangandi. Það var hráslagalegt og grátt, snjórinn að verða slabb, kaldur vindur blés og dimm ský hrönnuðust upp á himni. Þetta var engu að síður hátíðleg stund í mínu huga. Framan við Gullna hliðið var bílasala með umboð fyrir Opel.

Okkur gekk erfiðlega að komast að múrnum, rétt komumst lifandi yfir breiðgötu sem gekk þvert á þá Sigurbraut sem ég hafði ímyndað mér að lægi að keisarahliðinu. Framan við lá kirkjugarður, við gengum meðfram girðingu sem ætlaði að leiða okkur burt frá múrnum. Þá fann Hekla lítið hlið inní kirkjugarðinn og við gátum þrætt okkur milli legsteina. Við gleymdum okkur við að skoða arabíska letrið. Mér datt í hug gott nafn á bílasöluna hinumegin við götuna: KonstantínOpel. Við klofuðum yfir nokkrar grafir til þess að geta séð betur það sem við höfðum komið til að sjá með eigin augum: Gullvörtu.

Hér reið Sigurður Jórsalafari inn til fundar við Kirjalax keisara, hugsaði ég háleitlega og horfði á rústirnar af hliðinu og múrnum, hálfhrundum og löskuðum, lauflaus tré og rótarflækjur, klifurjurtir, njólar og illgresi höfðu læst klóm sínum í söguna og unnu að því að láta allt hverfa í gleymsku. Rifið plast og gömul föt héngu á greinunum og láku niður í síkið, gamlir brúsar og plasttunnur, blautir pappakassar, hurðarlaus ísskápur, eldavél í henglum og allskonar úrgangur; sorp. Í síkinu hafðist utangarðsfólk við í hreysum úr pappa og tilfallandi skrani. Hænur vöppuðu þar um og hundar lágu sofandi fram á loppur. Við sáum gróðurhús úr plasti, sum heilleg, önnur í rúst. Auk þess að vera mannabústaður og matjurtagarður virtist síkið einnig vera notað sem sorphaugur af þeim sem búa þar fyrir ofan, í kofum sem klastrað hefur verið utan í múrinn. Allt svæðið var girt af með steyptum vegg og járngirðingu þar ofaná. Stór og vígalegur hani kom stikandi í áttina til okkar eftir veggnum. Hann var hvítur og með mikinn rauðan kamp með löngum broddum, hann gekk alveg uppað andlitunum á okkur og galaði ógurlega.

Er þetta kannski Sigurður Jórsalafari?

(s. 367-369)