Heimskra manna ráð

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1992
Flokkur: 

Úr Heimskra manna ráðum:

 En nú gefst ekki meira næði því að hroðaleg óhljóð berast af bílaplaninu fyrir utan, forstjórinn sjálfur Sigfús Killian heyrist æpa og veina á starfsmenn sína og skipa þeim að koma inn; hurðum er hrundið upp og með bægslagangi og sköllum er húsgögnum rutt til, og svo birtist Sigfús sjálfur í dyrum forstjóraskrifstofunnar þar sem mennirnir þrír bíða. Sigfús er gljámjalandi í andliti, grettinn og uppspentur í gömlu vattúlpunni, veifar báðum höndum í einhverjum tryllingi einsog það sé kviknað í húsinu og allir skuli forða sér, og skipar gestum að koma inn á kaffistofu og þiggja veitingar. Allir eru gestirnir kunnugir Sigfúsi Killian og þá rekur í rogastans þegar komið er inn á kaffistofuna og forstjórinn fer að ota að þeim kökum. Hvítum jólakökum með skyldugum rúsínum, tvær eða þrjár slíkar lengjur á borðinu og fleiri í handraðanum. Og okkar maður sérlega hátt stemmdur, kemur ekki til mála að ræða erindi eða viðskipti fyrr en gestirnir hafa rutt í sig af jólakökufatinu, helst þrem fjórum sneiðum, eggjaðir lögeggjan, og gestgjafinn spyr: – Eru þetta ekki góðar kökur? – Jú, segja gestir með munninn fullan, – jújú. – Fáið ykkur meira! segir hann þá og sker sjálfur, hleður á diskana og tekur engin mótmæli gild, – þetta eru fínar kökur er það ekki?! Gestir kinka kolli, umla jáyrði, og Sigfús Killian bílapartaforstjóri færist enn í aukana: – Er nokkuð að þessum kökum? spyr hann nú. – Eru þetta ekki fyrsta flokks jólakökur? Er nokkuð að þeim? – Nei, segja gestir, með munninn fullan, halda kannski að kallinn hafi bakað þetta sjálfur, og segja alveg fyrirtak. En Sigfús Killian réttir úr sér, sigri hrósandi, hefur nú eftirminnilega fært sönnur á sitt mál um bruðlið í þjóðfélaginu og að allt sé að fara til fjandans. – Því að hvað haldiði? segir hann: – Ég fann fullan poka af þessum jólakökum hérna úti í porti hjá öskutunnunum í morgun. Kaupmaðurinn fyrir handan var búinn að fleygja öllu þessu fína bakkelsi!

(s. 90-91)