Heilagur andi og englar vítis

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1986
Flokkur: 

Úr Heilögum anda og englum vítis:

 Það tókst og hann dreymdi. Hann þóttist standa utandyra í garðinum og horfa inn um setustofuna. Skelfileg ófreskja sat við borðstofuborðið og horfði á krumlurnar á sér. Össur gekk inn í stofuna og leit í vantrú á þennan vætt.
 Honum varð ljóst að þessi ófreskja hafði fyrirgert sálu sinni, augun báru því vitni. Hann sá að það dreyrðu glærir vessar úr hárfínum sprungum á lærum hennar innanverðum. Það var engu líkara en sprungurnar hefðu verið ristar með rakvélarblaði í holdið sem var hvítt og mjúkt og bifaðist eins og hvalspik. Hroðalegast þótti honum þó höfuðið, þar var tæplega nef að sjá og munnurinn skelfileg hola, aðeins lítill blár marblettur á vinstri kinn gat talist mannlegur.
 En hlýðum nú á smá innskot: Össur hafði eitt sinn að sumri til unnið við pípulögn í nýbyggingu. Hann minntist þessa starfs með skelfingu þótt tæpur áratugur væri liðinn. Hann hafði borið sýróp í eyrað á sér eins og það var líka huggulegt að þrífa á eftir. Hann hafði sýnt Hönnu-Mömmu þennan gulbrúna, glæra lög sem dreyrði úr eyranu. Þetta er gröftur! Hann sagðist ekki þola hávaðann af djöflagangi tuttugu smiða, álíka hóps af pípurum og heilli herdeild kolbrjálaðra rafvirkja. En einmitt þess vegna gat hann borið kennsl á hár óvættarins. Það var píparahampur.
 Össur gekk nær og nú geystist annar óvættur fram á gólfið og beint í flasið á honum. Þetta var norn í svörtum kjólgopa og hún teygði hendur til himins með biðjandi augnaráði, nú brast á fárviðri í stofunni, kjólgopinn feyktist upp um nornina og hár hennar sópaðist aftan af höfðinu og upp í vindinn, stormurinn velti Össuri fyrirhafnarlaust um koll. 
 Hann skreið flissandi um gólfið af harðneskju hjarta síns og fannst ekkert skrýtið að vera skemmt við þessar aðstæður. Ég verð að finna kross, ég hef nú séð á bíó hvernig óvættur er yfirbugaður. Hann fann tvær járnstengur á gólfinu og lagði þær saman í krossmark og komst upp á annað hnéð og lyfti krossinum upp á móti svörtum blaktandi faldinum.
 Krossinn féll níðþungur í fang hans og Össur horfði gáttaður á teiknið.
 Hann hélt ekki á krossi. Það var sporjárnið sem hann hafði fengið lánað hjá Gunnsteini lækni einn sunnudagsmorgun fyrir þrjátíu árum.
 Nú kom nýr vættur fram á gólfið, stúlka í skínandi hvítum kyrtli með glórautt hár. Hún hét Fríða og hann hafði elskað hana í laumi í skóla. Hún rétti honum höndina og reisti hann á fætur og rafbylgjur hlupu um handlegginn, hann sá sporjárnið breytast í laufgaðan kross, ilmandi ösp og sérhvert laufblað í fullum sumarskrúða teygði sig í átt að sólinni sem sást í gegnum gluggann. Stóri Össur-Mamma vaknaði með andköfum af ótta og hló þess á milli af mestu hamingju sem hugsast gat.

(s. 29-30)