Haustgríma

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2000
Flokkur: 

Úr Haustgrímu:

„Víkingar stefna að landi. Við verðum að fela okkur,“ stundi Friðlín.
„Hér er engu að ræna,“ tautaði öldungur sem sat og tálgaði bein.
„Þeir ræna okkur!“ æpti ung kona.
Eins og holskefla flæddi angistin um hópinn. Engir augljósir felustaðir voru á eynni þar sem sléttar grundir og flæðilönd skiptust á. Nokkrir hestar voru á beit í nándinni og ungu stúlkurnar sem voru fráastar á fæti hlupu af stað til að reyna að ná þeim í tíma.
Magnlaus örvænting leysti skelfinguna af hólmi þegar fyrstu vígamennirnir skunduðu með alvæpni upp slakkan frá fjörunni. Kofar, útihús, lautir og gjótur urðu að skjóllitlum felustöðum. Friðlín þaut að skemmunni og sótti ljáinn sem var geymdur uppi undir rjáfrinu.
„Felið ykkur hérna,“ sagði hún og ýtti börnunum þremur inn í skemmuna.
Litla stúlkan grét og teygði sig til móður sinnar.
„Reynið að hugga hana, það má ekki heyrast í henni,“ hvæsti Friðlín um leið og hún skellti hurðinni að stöfum. Hún hljóp heim að húsinu sem stóð litlu ofar í brekkunni og vígbjóst með ljánum.
Hún sá ekki hildarleikinn sem á nokkrum andartökum litaði holtið rauðum taumum, heyrði ekki hófaskellina þegar þeir sem náðu hestunum þustu burt. Öll athyglin beindist að ófrýnilegum víkingi sem stikaði að henni. Hún brá ljánum en hann sló hann úr höndum hennar, greip aftan í hálsinn og dró hana af stað.
Þau sleppa, börnin mín sleppa, hugsaði hún þegar hann hrinti henni í átt niður að fjöru. En rétt í því náði barnsgrátur frá skemmunni eyrum þeirra. Víkingurinn sveigði þangað og hratt henni upp. Litla stúlkan hljóp til móðurinnar en drengirnir hörfuðu til baka og hann hvarf inn á eftir þeim.
Líkt og snarpur þytur í laufi var hvissið þegar hann brá sverðinu. Friðlín hentist af stað með stúlkuna í fanginu, burt, burt án þess að vita hvert en hafði ekki náð nema nokkra faðma þegar samanrekinn þjösni stöðvaði hana og hélt henni þar til hinn kom vaðandi út úr skemmunni með blóðslettur á kyrtlinum.
„Láttu hana lausa, hún er herfang mitt,“ urraði hann og þreif í Friðlín. Hann sleit litlu stúlkuna af henni, og fleygði henni frá sér.
„Ekki barnið, dreptu mig en hlífðu litlu stúlkunni minni,“ æpti Friðlín og fleygði sér á milli þeirra. Víkingurinn sparn henni frá, brá sverðinu og stakk því í brjóst barninu af þvílíku afli að það stóð fast í þéttum grassverðinum. Friðlín sá lífið fjara úr augunum og andlitsdrættina slakna eins og þeir hefðu verið þurrkaðir út.
Vígamennirnir rannsökuðu hvern krók og kima í kofanum en fundu fátt fémætt. Um síðir lágu nokkrir grísir í valnum en sauðfé hafði flest hvert bjargað sér á flótta.
„Heldur þykir mér herfangið rýrt,“ tautaði Grímur og horfði á eftir konunum sem félagar hans ráku í átt til skipanna.
Herfinnur rykkti sverðinu lausu og þurrkaði af því í grasið.
„Við misstum af þeim yngstu. En þessa vil ég hafa,“ svaraði hann og hratt Friðlín af stað niður holtið.

(s. 27-28)