Háski á Hveravöllum

Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1984
Flokkur: 

Úr Háska á Hveravöllum:

Þættinum var lokið og þau gátu farið að anda léttar. Nú þegar búið var að slökkva á upptökutækjunum gátu þau farið að tala saman án þess að yfirvega hvert orð.
 - Guð, hvað ég er fegin að þetta er búið. Það hlýtur að verða skárra næst. Marta strauk hárið frá enninu og dæsti. Þingmennirnir brostu. Það voru eiginlega þeir sem áttu að vera fegnir. En hún var ung og þetta var í fyrsta skipti sem hún þurfti að horfa í myndavélarnar. Þeir skildu hana.
 Jónas, hinn spyrjandinn, var þaulreyndur á þessu sviði. Hann var útsmoginn í að finna hinu veiku punkta og níðast á þeim. En Marta hafði komið þeim á óvart. Þeir höfðu slæma reynslu af Jónasi og höfðu hugsað sér að varast hann. Það hafði komið þeim á óvart hvað “stelpan” stóð sig vel. Þeir höfðu ekki haft áhyggjur af henni, en samt hafði hún ráðist á þá ekki af minni þrótti en Jónas. Hún yrði einhverntíma góð.
 Friðrik Lárus, alþingismaður, virti hana fyrir sér. Hann hugsaði með sér að gaman hefði verið að hún hefði verið flokkssystir hans og hann hefði fengið að starfa með henni. Reyndar vissi hann ekki hvar hún stóð í pólitíkinni. Hún hafði spurt þá alla jafn mikið. Hún var víst á vegum þessa nýja, óháða blaðs. Hann setti nú frat í það. Það gat enginn verið óháður og það var pólitík í öllum hlutum. Það þýddi ekki að bera annað á borð fyrir hann.
 Konur. Innst inni fannst honum að konur ættu að vera inni á heimilum og létta mönnum sínum störfin. Konan átti að ala börn og vera stolt manns síns. Flekklaus og falleg. Það var konan hans. Samt var allur ljómi farinn af sambúð þeirra. Reyndar fannst honum konur líka vera til að leika sér að. Hann var búinn að eiga margar ástkonu, ekki síst eftir að hann varÐ alþingismaður. Það var allt í lagi, fannst honum. Konan var sköpuð fyrir manninn og hann átti að fá að njóta hennar.
 Persónulega fannst honum að konur ættu að halda sig frá öllu pólitísku vafstri. En á þessum síðustu tímum gat enginn stjórnmálamaður viðurkennt slíka skoðun. Ef einhver vissi þetta sjónarmið hans, þá var hann viss um að hann fengi skellinn. Það var líka sterkt fyrir flokkinn að hafa konur í framboði. Best var samt að hafa þær í neðstu sætum og hann var feginn að ekki voru fleiri konur á alþingi. Þær áttu að vera puntið.
 Samt gat hann ekki annað en dáðst að þessari stelpu, sem nú var búin að spyrja hann í þaula. Hún hafði farið hálf illa með hann. Það eina góða við það var, að hún hafði farið illa með hina líka. Það gat varla verið að hún hefði mikið vit á stjórnmálum, en hún var skemmtilega frek. Það var aðeins ein kona sem hann þekkti, er hann dáði fyrir sína andlegu hlið og nú var hún horfin.

(s. 19-20)