Hanami : sagan af Hálfdani Fergussyni

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1997
Flokkur: 

Úr Hanami:

Í fljótu bragði var helmingi verra að geta ekki gert vart við sig en að vera dáinn. Úr þeirri prísund langaði hann svo mikið að honum þótti skárra en ekki ef það fyndist bara eitthvað af honum, lykt kannski. Og það gæti svosem aðeins hugsast, þótt hvorki heyrn né sjón gætu numið hann. Skyldi hinn rándýri rakspíri Kentár hrófla við nýju dömunni í bleiku dragtinni?
Hann færði sig nær henni. Það bar ekki á öðru. Hún leit í áttina til hans, ekki beint á hann, og kipraði nefið örlítið eins og pen kona mundi gera sem vildi lykta af einhverju án þess að láta á því bera. Var þetta þá allt og sumt sem hún gat af honum fundið? Lykt sem var ekki einu sinni af honum sjálfum, heldur kom úr glasi.
Ef hann væri lyktartækur, eða hvað það nú hét, þá gat kannski allt eins verið að hann hefði fleiri lúmskar leiðir til þess að gera vart við sig í mannheimi. Hann skoðaði þessa þrælsnyrtu konu, og leitaði hægt að stað til að koma við, ef það skyldi finnast frá honum snerting.
Hún var meðalhá, stutt í mittið, leggjalöng. Kálfarnir voru helst til vöðvamiklir fyrir konu. Þetta var nú ókosturinn við að vera í tækjum eða jogga; kvenfæturnir urðu of karlmannlegir. Rassinn á konunni var hins vegar af bröttu sortinni, þeirri almögnuðustu, og stutta pilsið eins og steypt utanum hann.
Höndin á Hálfdani lenti, eins og henni hefði verið stýrt, á hægri rasskinn konunnar. Hún sneri sér við og öskraði um leið: Dóni! Einmitt í því barði Rúnar hamrinum í borðið. Guðmundi gáttaþef var slegin uppþvottavél sem leit út eins og peningaskápur. Konan æpti aftur til þess að vera örugg um að allir heyrðu: Dóni! Allir sem einn litu í áttina að henni og Hálfdani sem hafði nú fjarlægt höndina.
Og þú fannst fyrir þessu? spurði hann undrandi.
Hvað heldurðu eiginlega að ég sé, spurði hún einkennilega mjórri rödd.
Lifandi kona.
Viðbjóður.
Ekki segja þetta, sagði Hálfdan særður. Hann átti fullt í fangi með sitt nýja ástand, og vildi helst ekki vera kallaður viðbjóður ofan á það. En eitthvað af því sem honum og konunni fór á milli hafði þau áhrif að honum blýstóð. Dauðum manninum.
Hver ert þú eiginlega, spurði sú ljóshærða hálffelmtruð en þó með allt á hreinu.
Hálfdani fannst öruggast að þegja.
Jafet var kominn til þeirra og sagði: Þetta er vinur minn, Hálfdan.
Sálugi, sagði Hálfdan.
Þeir sem til heyrðu skelltu upp úr. Svo dreifðist hláturinn og magnaðist þangað til hann var kominn út í hvern kima á Tollgeymslunni.

(s. 10-11)