Hallgrímur smali og húsfreyjan á Bjargi

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1990

Úr Hallgrímur smali og húsfreyjan á Bjargi:

Hreppstjórinn á Guðrúnarkoti mun á ýmsa lund hafa verið á undan sinni samtíð eins og það er oft kallað, átti frumkvæði að mörgu því er til framfara og menningar horfði í byggðarlaginu, stóð meðal annars fyrir stofnun lestrarfélags 1864, lét reisa sjálfum sér fyrsta timburhúsið á Akranesi 1871 og var hvatamaður að byggingu fyrsta barnaskólans 1880. Hallgrímur var hófs- og reglumaður í hvívetna, harðdrægur, „hagsýnn og eigingjarn“, enda varð honum allvel til fjár; sagður örlátur og hjálpsamur þar sem honum þótti við eiga, en virðist hinsvegar hafa verið gjarnt að beita harðúð og kenna um leti og ómennsku ef fólk komst illa af; „var hann og ekki talinn vinur hinna snauðu“, skrifar Kristleifur á Kroppi.
Mörgum sögum hefur farið af kaldrana Hallgríms við lítilmagna. Ein þeirra fullyrðir að hann hafi eitt sinn í hagræðingarskyni brugðið eggjárni á lík hreppsómaga nokkurs sem reyndist of leggjalangur í kistuna. Sigurður Briem, síðar póstmeistari, varð vitni að því við uppboð haustið 1890 að drukkinn maður minnti Hallgrím á þann atburð, og hafði hreppstjóra brugðið ónotalega við. Engar sönnur verða á söguna færðar, en hún hefur fylgt Hallgrími bæði lífs og liðnum, svo geðsleg sem hún er.


(s. 65-67)