Hafborg

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1993
Flokkur: 

Úr Hafborg:

Þegar ég var ræstur rét fyrir sex um morguninn, var sjóveikin ekki enn farin úr mér. Hreyfingar skipsins vóru orðnar allt öðru vísi, því við vorum komnir á bullandi lens. Nú var það skuturinn sem lyftist á ölduhryggnum, lagðist ögn til hliðar á stjórnborða og seig svo aftur niður. Það hlýtur að hafa verið erfitt að stýra. Ég varð þess vegna feginn, þegar Jens Færeyingur var sendur upp. Ég staulaðist aftur í, en átti erfitt með að halda jafnvægi á dekkinu. Ég sá, að strákarnir brostu.

Ég reyndi að fá mér morgunverð, en varð strax að fara út að æla og hafði ekki einu sinni lyst á að reykja. Sem betur fór var lítið að gera á vaktinni. Ananías bátsmaður og Stebbi pokamaður splæstu saman sveran vír, og ég undraðist hve auðveldlega þeir boruðu melspírunni næstum þvert í vírinn og stungu þráðunum í gegn. Þeir stóðu hvor gegn öðrum og unnu taktfast eins og einn maður. Ég hefði áreiðanlega aldrei getað losað sundu vírþættina með oddmjóum fleygnum, þótt ég þættist ráða sæmilega við að splæsa saman kaðal.

Mér var sagt að nota daginn til að sjóast, því að við þyrftum áreiðanlega að taka til höndunum á kvöldvaktinni. Ég spurði hvaða aðferð þeir kynnu til þess. Ananías sagðist ekki vera neinn sálfræðingur, en það lægi í augum uppi, að maður yrði að verða eins og ósjálfrátt hluti af skipinu og hreyfingum þess, þannig að maður hreyfði sig með skipinu jafn auðveldlega og maður gengi á sléttu gólfi. Það heitir að stíga ölduna, drengur minn, bætti hann við, og það kemur.

Elli kokkur var með rjúkandi kjötsúpu í hádeginu. Stebbi sagði, að þetta hefði hann gert af tillitsemi við mig, því að kjötsoð væri afbragð í galtóman og auman maga. Elli kímdi og sagði mér að fá mér fyrst fullan disk af eintómri súpu og borða hana hægt, og svo magurt kjöt á eftir. Og passa umfram allt að skera burt alla fitu.

Mér leist ekki vel á að borða, en ákvað samt að prófa. Við gátum ekki hangið lengi yfir matnum, af því að stýrimannsvaktin kæmi fljótlega upp. Ég smakkaði á súpunni og fannst hún bara góð. Ég gætti mín að borða ekki of mikið, og mér til undrunar hélt ég matnum niðri. Ég fékk mér sígarettu á eftir, en þorfði ekki að drekka neitt kaffi.

Mér gekk betur að fara frammí en afturí, og ég fann að ég hafði styrkst. Ég skreið upp í kojuna og fór að lesa. Ég hafði bara með mér eina bók. Þetta vóru sögur eftir Oscar Wilde í nýrri útgáfu frá 1952, lítil bók, en samt 383 blaðsíður, enda pappírinn þunnur. Ég vildi ná betri tökum á ensku, og enskukennarinn minn hafði bent mér á þessa bók í bókabúð á Akureyri fyrr í vor. Ég byrjaði að lesa formálann að Myndinni af Dorian Grey: The artist is the creator of beautiful things. To reveal art and conceal the artist is art's aim. Ég hafði ekki hugsað um listamenn sem skapara, en hitt fannst mér þó ennþá merkilegra, að listamaðurinn ætti líkt og að dyljast sjálfur eða felast í verki sínu..

(43-4)