Góði elskhuginn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2009
Flokkur: 

Um bókina:

Á kaldri vetrarnóttu er löngu brottfluttur Íslendingur allt í einu staddur fyrir utan heimili æskuástarinnar, á Seltjarnarnesi. Þau áttu saman sjö mánuði fyrir sautján árum en hafa ekki sést síðan. Hún hefur aldrei vikið úr huga hans. Hvað gerist í nótt? Ævilok eða nýtt upphaf?

Úr Góða elskhuganum:

Stórfenglegur kuldi yfir borginni og í borginni á febrúarmorgni kringum fótaferðatíma, og kuldalegast af öllu hafið sjálft kringum gaddfreðið eyjarkríli með fáeinum ljósum undan bikaðri strönd. Svarblár sjórinn svo fráhrindandi að ferðamaðurinn á strandlengjunni fann til með fiskunum að eiga heima þar og gat ekki séð hvernig nokkur skepna héldi á sér hita í þessum undirdjúpum, sama hvað blóðið væri kalt. Ferðamaðurinn vissi að manneskja með heitt blóð gat ekki lifað nema stutt í sjónum úti við fæðingarborg hans. Svo tók sjódauðinn við, sá sem var sætur eftir þeim að dæma sem fóru á mis við hann.

Floti af gegnköldum bílum hvíldi hrímaður í borginni og hinkraði eftir börnum og fullorðnum, sem voru að flykkjast fram útidyraganga allra hverfa og dúða sig fyrir spölinn út í bíl. Kuldaskór af öllum stærðum í þann veginn að lenda á réttum eiganda, sumir við vöxt, aðrir of litlir, og krepptu að óhörnuðum tám sem yrðu í versta falli skakkar til frambúðar.
Láglaunafólk, ásamt námsmönnum, nýbúum og sérvitringum, var farið að týnast út í biðskýlin, blessunarlaust fólk að öðru leyti en því að eitthvað var að fæðast í austurátt sem var kallað morgunskíma í bókmenntum, en var hér rönd af ljósari gráma í allsherjargráma. Þessu fólki var kalt, sama hvað það var dúðað, og sumir voru ekki einu sinni nógu vel klæddir. Þeir verst settu héldu í höndina á kuldabláu barni, og barnið var enn verr sett en sá sem hélt í höndina á því.

Í sundlaugunum var þennan vetrarmorgun óeðlilega grannholda, sinabert og uppþornað fólk yfir sextugt, fólk sem gekk berfætt í klakahrönglinu á laugarbakkanum og kippti sér ekki upp við neitt, yfirmáta heilsuhraust fólk sem fékk hvorki kverkaskít né hjartabilun, en átti þó eftir að kosta þjóðfélagið og sjálft sig háar upphæðir með því að lifa ekki skemur en til níræðs, og sumt jafnvel lengur.

Yfir þessu fólki og kuldanum í borginni og í hafinu vofði eitt ljómandi fullt tungl í morgunsárið, eins og útborið afkvæmi sólarinnar, og gaf fölsk fyrirheit um hlýju sem gæti aldrei stafað frá því, ekki á þessa borg, þetta haf, hvergi.

(s. 10-11)