Gallagripir

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1995
Flokkur: 

Um bókina

Gallagripir segir frá Ása, sem stendur uppi atvinnulaus eftir að hafa orðið fyrir óhappi á fyrsta klukkutímanum fyrsta daginni í sumarvinnunni. Og hvernig á hann að útskýra svona klaufaskap fyrir stelpunni sem hann er hrifinn af?

Úr bókinni

Matthildur Ósk!
 Það var ár og dagur síðan hann sá hana síðast. Vika var eilífð þegar ástarbálið logaði svona glatt.
 Var hún að hugsa til hans núna?
 Var hún að velta því fyrir sér af hverju hann kom ekki í afmælisveisluna til hennar að kvöldi dagsins örlagaríka þegar hann fékk steypufötuna ofan á tærnar?
 Áreiðanlega.
 Það var ófyrirgefanlegur aulaháttur að hafa ekki látið hana vita að hann væri fótlama og í útgöngubanni. Að afmælisgjöfin yrði að bíða.
 Já, hann ætlaði að gefa henni afmælisgjöf. Að sjálfsögðu!
 Það var gullhúðaður hringur í eyra sem hann hafði upphaflega keypt handa sjálfum sér fyrir slikk í Kolaportinu en sat uppi með af því að hann guggnaði á að láta gera gat. Hann hafði fyrir löngu sett þetta djásn í dimmbláa skartgripaöskju og pakkað því inn í skrautpappír með rauðum borða og slaufu. Þessi litli en dýrmæti pakki var vel falinn á bak við bækur í hillunni fyrir ofan skrifborðið hans. Hann var auðvitað ekkert að veifa svonalöguðu framan í heimilisfólkið.
 Hann hlakkaði til að leggja þessa fallegu gjöf í lófa hennar. Sjá hana brosa af gleði. Hugsanlega tárast.
 Og að fá kossinn.
 Hann fór í sparifötin, greiddi sér vel og vandlega og klappaði kinnarnar með rakspíra.
 Og fór út.

(s. 23-4)