Gaga

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1984
Flokkur: 

Endurútgefin af Forlaginu árið 2000.

Úr Gaga:

Geimfarinn gafst upp og gekk niður í bæ og talaði hátt um þessa fatabúð við sjálfan sig. Það var byrjað að grána á himni. Hann gekk rösklega stórum skrefum og vingsaði töskunni og heyrði hvernig hnífurinn small. Miðbærinn minnti hann á væmið jólakort og klukkan á torginu var ellefu mínútur yfir tíu. Hann fór og keypti flugmiða. Hann gekk í hringi á Lækjartorgi og sveiflaði töskunni og horfði lengi til himins en Terra var hvergi að sjá. Hann sá aðeins Phobos og Deimos, hin tvö hraðsvífandi tungl Mars. Hann nam staðar á miðju torgi, setti upp sólgleraugu og leit rannsakandi í kringum sig. Marsbúarnir gengu til og frá án þess að taka eftir honum.

Hann lagði hönd á hjartastað til þess að gefa til kynna að hann kæmi í friði, hann hafði lesið að það væri siður á Mars, hann hneigði sig djúpt í allar áttir og sagði Kaor, lágri og skýrri röddu, en Kaor er kveðja Marsbúa, en enginn fulltrúi kom til þess að bjóða hann velkominn til rauðu plánetunnar.

Hann klofaði eftir Austurstræti og skoðaði húsin til beggja handa. Hvernig gæti ég sannað, að ég er frá jörðinni? Ég gæti ekki einu sinni smíðað hrærivél, þó það ætti að drepa mig og það eru algeng tæki. Og hvað er Sómalía? Mér finnst ég kannast við þetta nafn en ég get ekki komið því fyrir mig, hvort það er fjall eða land. Ég hefði átt að taka með mér uppsláttarrit og sýna þessum fábjánum hvað jörðin er merkileg en hvað hefði það þýtt, hugsaði hann reiður, það stendur ekki allt í uppsláttarritum og þeir hefðu bara sagt að ég væri sölumaður.

(s. 19-20)