Gæska

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2009
Flokkur: 
Af bókarkápu:

Íhaldsþingmaðurinn Halldór Garðar vaknar og veröldin er allt önnur en þegar hann lagðist til svefns: Það skíðlogar í Esjunni og reykjarmökkinn leggur yfir Reykjavík. Austurvöllur er þéttskipaður mótmælendum hvernig sem lögreglan spúlar þeim burt. Skæðir sandstormar geisa. Konur hrapa ofan af byggingum og fletjast út á gangstéttarhellum. Ástandið fær svo á Halldór að hann læsir sig inni og skrópar í þinginu. En þegar ung marokkósk stúlka biður hann um að hjálpa sér að leysa foreldra sína úr klóm íslensku ríkisstjórnarinnar öðlast líf hans áður óþekktan tilgang ...

Úr Gæsku:

Við endimörk veraldar, þar sem skútur, bátar og skip sigla óumflýjanlega fram af fyrr eða síðar og hrapa niður í útgeima, sat sólin á sinni eigin kistu og starði stírum hlöðnum augum á Freyleifu. Hún hleypti brúnum og brá grön, einsog tilvist þessarar konu, sem án minnstu viðvörunar hafði skotið sér inn í sjónlínu sólar, hefði komið henni í opna skjöldu. Þær stöllur brostu hvor við annarri og kölluðust á í ópum með upphrópunarmerkjum:
„Hó!”
„Hey!”
„Æ!”
„Nei!”
„Úff!”
„Já!”
„Jeminn!”
Dúuðu hvor sínum megin í veröldinni, Freyleif og sólin, vógu salt á brúnum, öttu kappi við sólgos og gróðurhúsaáhrif, kurraði í þeim og þær vissu að öllu myndi þessu ljúka: konur og sólir slokkna. Það er hin óumflýjanlega staðreynd.
Eftir því sem sólin reis og birtist upp af þverhnípi heimsins hneppti Freyleif betur að sér kápunni. Útvarpið spáði rigningu, en hann hangir þurr. Þetta verður einsog að fljúga, hugsaði Freyleif. Þegar bjart var orðið stóð hún aftur á fætur, rambaði á pinnahælunum og dró þykka loðhettuna á úlpunni yfir eyrun. Einsog að fljúga. Útvarpið spáði rigningu, og kannski mun rigna en líklega hangir hann þurr.
Rokið lék sálma á glufur bygginga, flautaði í sprungur og gjár borgarinnar svo ýldi og vældi í húsum og kofum og jarðarbúar – blessaðir vesalings angarnir – litu allir upp í einu líkt og eftir forskrift þegar Freyleif lét sig falla. Vit þeirra afmynduð af hryllingi, varir geiflaðar af gjömmuðum meiningum. Loftið lyktaði af ótal haustum og í kvöldinu glitraði á sjálft myrkrið á milli ljósastauranna, bílanna, eldhúsglugganna – milli auglýsingaskiltanna og flugleiðamastranna, handan við seilingu innsiglingaljósanna og hringsnúandi skipavitanna. Héðan sást alla leið niður á gangstétt.
Það fnæsti í veruleikanum og vit Freyleifar fylltust þykkum þokum. Hún veit ekki hvað hún gerir (fyrirgef þeim). Hún veit ekki lengur hvað hún gerir (fyrirgef). Hún féll hraðar og hugsaði hægar. Kápan blés út einsog skonnortusegl undan norðangarra, hún kollsteyptist í loftinu og færðist stöðugt nær gangstéttinni með höfuðið á undan þar til hnapparnir slitnuðu skyndilega af, einn af öðrum, og hún þyrlaðist einn hring til, baðaði út höndunum forviða á eigin skammsýni. Freyleifu fannst ekki bara sem augun sykkju inn í höfuðið á henni heldur einsog teygðist á sjálfum augntóftunum; höfuðið væri á barmi þess að fyllast þrýstilofti og springa. Þetta var ekki einsog hún hafði haldið. Þetta var ekkert líkt því að fljúga. Þetta var meira einsog að detta.
Konur deyja. Það er hin óumflýjanlega staðreynd. Þær hrapa fram af byggingum, illa til hafðar og örvæntingarfullar.
Og karlmenn, þeir fara á þing.

(s. 9-10)