Fyrirlestur um hamingjuna

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2000
Flokkur: 

Úr Fyrirlestri um hamingjuna:

Haraldur átti afmæli fjórtánda nóvember og af því tilefni setti Margrét á rjómatertu. Það komu ekki margir því allir ættingjar þeirra bjuggu norður í Þingeyjarsýslu og austur á Héraði, en nágrannakonan kom með lítinn sonarson sem boraði í nefið og vildi ekkert tala, hvorki við Margréti né afmælisbarnið. Jón kom með stóran vörubíl undir hendinni og bruddi í fáti sex sykurmola en annars var fátt á honum að græða og Margrét kveikti á útvarpinu til að þögn hans yrði ekki jafn himinhrópandi. Haraldur var þá farinn fram í stofu til að prófa bílinn en hún kallaði á hann að heyra tíðindin úr útvarpinu. Ný eyja hafði fæðst suður af Íslandi , hún reis úr sjónum glæný og glóandi heit og átti sama afmælisdag og Haraldur.
- Guð er að gefa þér afmælisgjöf, væni minn, sagði Margrét en útvarpsmaðurinn tók fram í fyrir henni með þeim orðum að líklegt væri að eyjan sykki aftur í djúpið. Margrét tók orðið aftur af útvarpsmanninum og sagði að það fegursta og dýmætasta í heiminum væri einmitt það forgengilegasta. Eins og þessi eyja sem átti að deyja ung, sumarblómin og hinar ofurviðkvæmu og skammlífu manneskjur en ekki var ljóst hvort hún átti þá við allar manneskjur eða örfáar útvaldar. Jóni vöknaði um augun af aðdáun á orðsnilld Margrétar.

Þegar Haraldur var sofnaður, úrvinda með bílinn í fanginu, kom Jón og náði í hann og þeir keyrðu í hendingskasti niður að höfn í farartæki sem í senn var bátur og bíll. Haraldur sat í skutnum og Jón reri út að eyjunni ungu. Haraldur stökk í land og fann ekki til kulda, þótt hann væri á náttfötunum, því hitann lagði upp af rauðglóandi hraunlækjum og eyjan var heit viðkomu eins og kaffibolli. Haraldur sló eign sinni á stein á stærð við kartöflu og þá um leið kváðu við drunur og sprengingar og Haraldur flýtti sér aftur upp í bátinn til Jóns sem faðmaði hann að sér og hvíslaði í eyrað á honum að eyjan væri ennþá að stækka og þeir mættu ekki trufla hana meira.

Um morguninn kom hann fram í eldhús með svartan sand undir iljunum en þegar hann ætlaði að sýna Margréti steininn var hann hvergi að finna og Margrét þurfti að beita hann hörðu til að hann fengist til að fara í skólann og þar kvartaði hann yfir því að ekkert útvarpstæki væri í skólastofunni.
Hann fékk að fara tíu mínútum fyrr til að ná hádegisfréttunum og þegar hann kom hlaupandi heim var Jón á sínum stað við borðið. Haraldur játaði með erfiðismunum að steinninn væri glataður en Jón blikkaði Margréti og sagði: - Ég geymi hann fyrir þig.
Jón var ekki lengur jafn óþægilegur að horfa á og áður. Kannski var hægt að venjast öllu. Haraldur gekk jafnvel svo langt í rausnarskap sínum að spyrja Margréti hvers vegna hún giftist ekki Jóni.
Margrét horfði á hann smástund og sagði síðan: - Þá þyrfti Jón að sofa þar sem þú sefur og hvar ættir þú þá að sofa?
Haraldur eyddi þessu háskalega tali og sá eftir að hafa stungið upp á einhverju jafn róttæku, því þótt hann vissi ekki margt þá vissi hann að það er best að hafa allt eins og það hefur alltaf verið.

Eyjan sökk ekki. Hún vék ekki frá þeim stað sem hún hafði valið sér og að lokum urðu menn að viðurkenna að hún yrði sennilega um kyrrt og hún hlaut hið tilkomumikla nafn Surtsey. Margir urðu bálreiðir af því þeir héldu að fífldjarfir útlendingar hefðu orðið fyrstir til að stíga á eyjuna en Haraldur, Margrét og Jón vissu betur. Haraldur eyjueigandi hafði þar fyrir utan fáar áhyggjur af því hverjir þrömmuðu um í litla ríkinu hans, hann var enda höfðinglegur eins og hann átti kyn til. Jón gaf honum í jólagjöf stóra bók um eldfjöll og þar með voru örlög hans ráðin.

(s. 38-40)