Fólkið í kjallaranum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2004
Flokkur: 

Af bókarkápu:
Kannski drukku mamma og pabbi mikið af ódýrum bjór, þrættu stöðugt í stúdíóíbúðinni, áttu of lítinn gjaldeyri til að fjölskyldan gæti gert nokkuð nema svamla í sjónum. Kannski voru þau sífellt taugastrekkt - en þau reyndu. Að gera eitthvað skemmtilegt fyrir systurnar, bjarga sambandinu vegna þeirra. Þau voru þrítug með tvær dætur og svo langan skuldahala að fjölskyldan hefði getað fetað sig eftir honum heim til Íslands ...
Klara ólst upp við frjálslyndi hippaforeldra og átti skrautlega æsku, en er nú í sambúð með ungum manni á uppleið. Ákveðin atvik verða til þess að hún gerir upp við hugsjónir foreldranna, jafnframt því sem hún tekst á við gildismat sinnar kynslóðar. Um leið uppgötvar hún nýjar hliðar á sjálfri sér og eigin lífi.

Úr Fólkinu í kjallaranum:
 Barði beinir orðum sínum áfram að Klöru: Þið hafið of hátt.
 Elín hniprar sig saman þegar Svenni rekur upp leikrænan hláatur og hrækir út úr sér að kvörtunin komi úr hörðustu átt. Þetta - þetta er fáránlegt. Ertu virkilega að kvarta yfir hávaða? Maður sem...
 Já, hann er að kvarta, grípur Klara fram í fyrir honum og veit upp á sig skömmina. Það var hún sem sló undir beltisstað. Í stigaganginum hafði hún næstum því notað sjálfsmorð kærustunnar gegn honum. Hvað vissu þau svosem um Barða? Líklega þurfti hann ró til að syrgja; dauðinn umsnýr veruleikanum, hávaðanum linnir, hann hljóðnar. Fyrirgefðu Barði.
 Já, já - en þið verðið að lækka í tónlistinni og hætta þessum kölum, ítrekar hann og hvolfir síðasta bjórsopanum í sig.
 Heyrðu! segir Nonni og stígur varlega í áttina til Barða. Átt þú kisuna?
 Kattarkvikindið á sig sjálft.
 Klara kippist við: Það er óþarfi að svara barninu svona hastarlega.
 Hastarlega! Hann fitjar upp á stutt nefið, hlær rámur. Þú ættir að vita hvernig hún móðir mín ávarpaði mig. Augun hvarfla að Nonna. Elsku vinur, litla sæta kisan missti mömmu sína.
 Hún er falleg. Nonni klappar kettinum sem setur upp kryppu og skýst í átt að Elínu. Hún hörfar frá henni, hjúfrar sig upp að Bogga.
 Þetta er nóg. Klara grípur utan um Nonna. Við skulum lækka - en reyndu að slappa af. Það eru bara tveir gestir í mat hjá okkur.
 Barði berar tvo gulsvarta tannstúfa. Gestirnir mættu vera hundrað fyrir mér. En þið eigið að lækka í tónlistinni og hætta þessum köllum.
 Svenni gónir á þau; keppnismaður lúffar ekki fyrir nýjum reglum. Bíddu nú hægur, góði minn. Mánuðum saman gátum við ekki sofið fyrir fylleríislátum, öskrum og gráti. Hann dregur andann djúpt. Og núna, þegar við erum með vinafólk í mat og dálitla tónlist, kemur þú og kvartar.
(s. 92-94)