Flækingurinn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2015
Flokkur: 

Um bókina

Hrafn er mállaus piltur sem flækist um götur Reykjavíkur. Hann á hvergi heima og lifir á jaðri samfélagsins. Sú veröld sem hann hrærist í er harðneskjuleg og á stundum mörkuð ofbeldi og vímu, en þar dafnar líka einlæg vinátta og allt í kringum hann er blóðheitt fólk og sterkar tilfinningar: harmur, blíða, ást …

Úr Flækingnum

Efnilegasta móðirin í hópnum

Eftir nokkra hríð hafði ég virt stelpurnar heima hjá Laufeyju fyrir mér og velt fyrir mér mögulegum hæfileika þeirra tila ð ganga með barn.

Jóhanna var yfirveguð, sat í græna stólnum og prjónaði, fór á bókasafnið, hitti ömmu sína, hafði samband við gamlar vinkonur og tilveru án vímuefna. Hún var traust og áreiðanleg, þegar hún var með meðvitund það er að segja, jarðbundin og ætlaði að verða flugstjóri. Ef til vill myndi ólétta reisa tilveru hennar við og draga úr áhuganum á lyfjum og óreglulegum háttatíma. Hún yrði skynsöm og fyndi æðri tilgang með lífi sínu. Ég myndi gæta barnsins á meðan hún lyki námi í Ameríku. Amma hennar væri of gömul til að ættleiða krógann.

Vinkona mín hafði of margt á sinni könnu þar að auki sem Laufey var persónulega mótfallin barneignum, eins og hún hafði oft lýst yfir. Þá kæmist hún bráðum á aldur.

Telma var of tryllt og skapbráð og foreldrar hennar gætu heimtað barnið og fengið að ættleiða það vegna áhrifa þeirra í samfélaginu.

Dálæti Lísu á áhættusamri hegðun gæti skaðað fóstrið, þá var hún fálmkennd og olli óreiðu hvar sem hún fór þó hún væri rólegri en Telma. Gylfi myndi aldrei samþykkja að Evelyn gengi með barn annars manns, þó það væri fyrir væna fúlgu fjár og Evelyn vissi heldur ekki að ég væri til.

Unnur var of ung, mjaðmagrindin enn í mótun, lítil og lágvaxin, gæti ekki borið barn. Hún myndi heldur ekki taka í mál að ganga með barn þó hún hrifist af músum, rottum og kettlingum.

(38-9)