Fjóli Fífils: Lausnargjaldið

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2008
Flokkur: 


Myndir: Eva Kristjánsdóttir.Af bókarkápu:Fjóli Fífils, einkaspæjarinn snjalli, er tilbúinn í nýtt verkefni. Að þessu sinni þarf hann að bjarga sjálfum Sumarliða Mikkelson, skólastjóra einkaspæjaraskólans, úr klóm ræningja. Þá er gott að Fjóli er meistari í fótsporafræðum, sérfræðingur í fingrafaraleit og ekki hræddur við nokkurn skapaðan hlut. Sér til aðstoðar hefur hann ofurhamsturinn Pedrú, Fornfríði vinkonu sína og skiptilærling hennar frá Frakklandi, Grimm Díableu. Lausnargjaldið sem ræningjarnir heimta er sjálft Brísingamen gyðjunnar Freyju sem Sumarliði hafði í vörslu sinni en man ekki lengur hvar er.Lausnargjaldið er önnur bókin um einkaspæjarann Fjóla Fífils – bók sem kitlar hláturtaugar lesenda á aldrinum 8-13.Úr bókinni:Leynifylgsni Sumarliða var með sanni óvenjuleg vistarvera. Að utan virtist bambuskofinn smár en að innan sást vel hversu stórt fylgsnið var og sérlega hátt til lofts. Félagarnir voru staddir í stóru hringlaga herbergi með gluggum á þrjá vegu. Útsýnið var einstaklega glæsilegt; ruslagámar í margvíslegum litum. Fjóli benti þó á að upphaflega hefði útsýnið verið mun tilkomumeira. Fornfríður furðaði sig á öllum þessum stóru gluggum sem sáust ekki utan frá. Við nánari athugun kom í ljós að utan við hvern glugga var strengt þétt net í felulitum sem sást varla að innan.Í herberginu var allt á rúi og stúi. Einhver hafði gengið hér um og grýtt öllu sem hönd á festi. Búið var að opna allar skúffur og skápa og hreinsa úr þeim. Fjóli var miður sín.„Ja-hérna, það er greinilegt að lærimeistari minn hefur látið mannræningjana finna fyrir því! Hann hefur barist til síðasta blóðdropa, eða þannig sko … auðvitað er eitthvert blóð eftir. Annars hefði hann ekki getað skrifað undir bréfið!“Fornfríður, sem hafði skoðað sig gaumgæfilega um, greip fram í fyrir honum:„Ég held að hér hafi eitthvað annað verið á seyði. Mér sýnist á öllu að mannræninginn eða ræningjarnir hafi verið að leita að einhverju. Og það á mjög skipulegan hátt. Sjáið hvernig allar skúffur eru dregnar út. Og takið eftir hvernig búið er að rista göt á sessurnar í sófanum. Jú, það er ekki um að villast, hér hefur verið framkvæmd húsleit. Og það ekki af lögreglunni því að lögreglustjórinn sagði mér sjálfur að þeim hefði ekki gefist tími til að koma hingað. En að hverju var verið að leita og hver var þar að verki?“Fjóli var argur út í sjálfan sig. Auðvitað voru þessi ummerki ekki eftir slagsmál.„Skörp ertu, Fornfríður mín, ekki lengi að átta þig á aðstæðum. Ég sá þetta náttúrlega um leið og ég kom inn en ég vildi bara sjá hversu glögg þú værir. Svoleiðis gera nefnilega lærimeistarar, … heehumm … leyfa lærlingunum að … læra af sér.“Fornfríður heyrði ekki orð af því sem Fjóli tautaði því að hún hvar komin hálf inn í risastóran fataskáp. Fjóli ákvað að hefja rannsóknarstörfin og svipaðist spæjaralega um í kofanum. Hann rak fljótlega augun í nokkuð áhugavert. Á vegg milli tveggja glugga héngu tugir myndaramma.„Pedró, sjáðu þetta,“ sagði Fjóli ákafur og klappaði á vasann á spæjarafrakkanum, „þetta er alveg magnað. Þú verður að sjá þetta.“Pedró skreiddist upp úr vasanum og klifraði á ógnarhraða upp á spæjarahattinn.(s. 21-22)