Fjallakrílin, óvænt heimsókn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1984
Flokkur: 

Myndir: Búi Kristjánsson.

Úr Fjallakrílunum: óvæntri heimsókn:

 Á einu slíku kvöldi eru Rísla og Snudda í kvöldgöngu. Húmið hefur blámað lautir og skorninga og er að byrja að læðast um hæðirnar því að það er orðið áliðið.
 Þær eru komnar langt frá húsinu og stefna á grösuga hæð með stórum steini. Þær fara oft hingað og klifra upp á steininn af því að þá sjá þær svo vel yfir. Einkum finnst þeim gaman að skoða stjörnurnar og þessi staður er tilvalinn til þess.
 - Þarna eru þessar þrjár sem eru alltaf saman og þarna er sú skæra, segir Rísla.
 - Og þarna er ein heljarstór og skær sem hreyfist, sjáðu bara, segir Snudda, grípur í Ríslu og bendir.
 - Já, sko, hún hýtur að vera að hrapa, segir Rísla og horfir agndofa á stjörnuna sem nálgast óðfluga og virðist því stærri og skærari sem hún kemur nær.
 - Hún kemur hingað. Ég vona bara að hún hrapi ekki ofan á okkur eða ofan á húsið, hrópar Snudda í angist.
 Stjarnan kemur nær og nær með ótrúlegum hraða. Þegar hún er beint yfir höfði þeirra lækkar hún og þá sjá þær að þetta er ekki stjarna, heldur einhver furðuhlutur sem geysist áfram, umlukinn dularfullu bláu ljósi.
 Rísla og Snudda verða óttaslegnar. Þær grípa hvor í aðra og byrja að snökta. Þær langar að hlaupa heim í hús en þora ekki að hreyfa sig af steininum. Þær geta heldur ekki hreyft sig því að þær eru alveg máttlausar af hræðslu. Þær standa bara þarna eins og tvær litlar klessur. Það eina sem hreyfist eru augun. Gagntekin af skelfingu fylgja þau eftir þessu furðulega fyrirbæri sem hnitar hringa yfir fjallinu.
 Það lækkar flugið og á endanum sjá þær ekki betur en að það hverfi ofan í djúpa laut einhvers staðar utar á fjallinu. Þær sjá ekki hlutinn sjálfan lengur, bara bjarmann af honum.

(s. 22-23)