Farandskuggar

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2011
Flokkur: 


Af bókarkápu:Er kannski nauðsynlegt að fórna draumum til þess að halda stundarfrið? Er það einasta ráðið? Hvers virði er þá sá friður? Hvað hlaust þú í skiptum fyrir þínar brostnu vonir?Þegar sonur reynir að stykkja saman ævi aldraðar móður sinnar rekst hann á ýmsar hindranir. Þykk og þrúgandi þögn hefur legið yfir mörgu í lífi hennar og fjölskyldunnar - draumar og þrár hafa rekist illa í hörðum og miskunnarlausum veruleika.Í sársaukafullu ferðalagi sonarins um ævi móður sinnar er hann þó ekki síður í leit að því sem mótaði hann sjálfan. Um leið er hér sögð saga heillar kynslóðar íslensks alþýðufólks - farandskuggum fyrri tíðar - í bók sem er í senn raunsæ og þrungin fegurð. Úr Farandskuggar:Þegar ég kom inn í herbergið þitt varstu með ljóðabók í sofandi höndunum og engu líkara en að þú værir að lesa í henni. Dimmbláar og útstæðar æðar mynduðu krans um titilinn, "Bók spurninganna" eftir Pablo Neruda. "Sonur reiðinnar" lá lokaður ofan á kommóðunni. Ég settist á stokkinn og teygði mig eftir "Syninum", opnaði bókina og fékk ekki betur séð en að henni hefði aðeins verið flett fram yfir fyrstu textasíðu. Ég hampaði henni dágóða stund áður en ég lagði hana frá mér þar sem ég hafði tekið hana, virti hirsluna fyrir mér og fann fyrir eftirvæntingarfullum ótta vegna þess sem þar kynni að vera falið. Þetta var svo óþægileg tilhugsun að ég stóð á fætur, dró til stól og settist til hliðar við rúmið með bakið í kommóðuna. En það var ekkert skárra að hafa hana fyrir aftan sig. Ég sneri stólnum. Þá var hún komin á hlið við mig. Þaðan sá ég bækurnar þínar og myndir af forfeðrum okkar og afkomendum þínum. Þarna leið mér vel þar til kommóðan tók að gapa að mér mörgum kjöftum sem rifnuðu upp í glotti þegar þú tókst andköfum í öðrum heimi rétt áður en þú opnaðir augun og slepptir tökum á Neruda.,,Hvaðan koma þessir draumar?“ spurðirðu á meðan þú varst að vakna.Af því ég vissi ekkert um það teygði ég mig eftir bókinni, náði henni áður en hún lokaðist og las upphátt það sem fyrir augunum lá: ,,Hvað verður um það sem mann dreymir? Flyst það yfir í drauma annarra? Og faðir þinn sem er á lífi í draumnum, deyr hann aftur þegar maður vaknar?“,,Áður var hann alltaf svo glaðbeittur,“ saðir þú ofan í lesturinn.,,Hver þá?“ spurði ég af því að ég vissi ekki fyrir víst um hvern þú varst að tala þó að ég hefði grun. Þú horfðir á mig óttaslegin áður en þú hristir af þér, hófst þig upp úr djúpinu og sagðir með klingjandi rödd kátínunnar:,,Himininn klæddur í þokur sínar.“(s. 45-46)