Fákar: Íslenski hesturinn í blíðu og stríðu

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1978
Flokkur: 

Úr Fákum:

Guðdómlegur uppruni

Hesturinn er ekki lengur ,,þarfasti þjónn Íslendinga einsog hann var í meira en þúsund ár, en hann á ennþá mikilli hylli að fagna meðal þjóðarinnar, og virðist vegur hans satt að segja fara vaxandi hin síðari ár. Hestamannafélög eru orðin mörg talsins og flest þeirra fjölmenn. Hestamót eru ákaflega vel sótt. Lögð er vaxandi rækt við rétta tamningu og reiðmennsku, fóðrun og hirðingu. Allt hefur þetta stuðlað að viðgangi íslenska heststofnsins bæði að því er snertir gæði og styrk, enda á hann einnig sívaxandi vinsældum að fagna erlendis, bæði í Evrópu og Norður-Ameríku.

Af ástæðum sem ekki er sérlega erfitt að geta sér til um hefur hesturinn jafnan síðan hann var taminn og tekinn í þjónustu mannsins fyrir 6000 árum örvað ímyndunarafl hans og hugarflug. Meðal indó-germanskra þjóða var hesturinn snar þáttur daglegs lífs, trúariðkana og listsköpunar. Við höfum tilvísanir til hesta í goðsögnum ýmissa trúarbragða. Frægastir slíkra hesta eru hinn vængjaði Pegasos í grískri goðafræði (sprottinn uppaf blóði gorgónunnar Medúsu) og Sleipnir í norrænni goðafræði (afkvæmi hins viðsjála Loka þegar hann brá sér í merarlíki). Hversvegna uppruni þessara tveggja stórfrægu gæðinga er rakinn til ókinda, er og verður óráðin gáta.

Í norrænni goðafræði eru ýmis önnur nafntoguð hross. Einn af sonum Óðins, hinn næmi útvörður ása, Heimdallur, sá er heyrði gras gróa og ull vaxa, átti gæðing sem nefndur var Gulltoppur. Gná dóttir Óðins og Friggjar átti hest, sem hét Hófvarpnir og rann bæði loft og lög, að því er Snorri staðhæfir. Fákur hins bjarta og góða áss, Baldurs, er ekki nafngreindur, en hann fylgdi bónda sínum í hinstu för á bálið. Óðinn, faðir allsherjar, var alræmdur fyrir sín mörgu og sundurleitu dulargervi og margvíslegu dulnefni, sem eru reyndar mörg hver hestanöfn, til dæmis Jálkur, Fengur, Vakur, Brúnn, Hrani, Síðgrani, Rauðgrani, Hrosshársgrani o.s.frv. Veraldaraskurinn, tákn sjálfs lífsmagnsins, þarsem æsir héldu ráðstefnur sínar, nefndist Yggdrasill: ,,hross Óðins.
(3)