Engin spor

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1998
Flokkur: 

Úr Engin spor:

Þau voru að fletta gegnum skjölin sem Hrefna hafði fundið um rannsókn á andláti Jacobs Kieler eldra sumarið 1945. Þegar komið hafði í ljós að sama byssan hafði banað báðum feðgunum urðu þessi gömlu gögn mjög áhugaverð.
Halldór lauk símtalinu þungbúinn á svip og sneri sér að skjalabunkanum.
Fyrst var það skýrsla rannsóknarlögreglumanns sem komið hafði á vettvang. Nafn hans var Andrés. Hrefna las hana upphátt og sleppti því sem skipti ekki máli:

“Í dag, þann 15. júlí 1945, voru lögregluþjónarnir N.L. og O.A. kvaddir að húsinu í Birkihlíð. H.J. ráðsmaður á heimilinu hafði komið að húsbónda sínum, Jacobi Kieler eldra, dánum, í aðalstofu hússins. Stórt sár var á hægra auga hins látna.
Ég undirritaður, A.H. rannsóknarlögreglumaður, var kvaddur á staðinn og skoðaði vettvang. Athuganir mínar og samtal við H.J. ráðsmann leiddu í ljós eftirtalið:
Glerrúða í hurð fyrir aðaldyrum hafði verið brotin utanfrá. Hægt er að aflæsa hurðinni með því að teigja hönd í gegnum brotna rúðuna. Hinn látni var einn í húsinu um nóttina en eiginkona hans og tvö uppkomin börn voru utanbæjar. Vinnufólkið sem býr í kjallara hússins hafði fengið frí þessa helgi og farið burt úr húsinu. Hinn látni var klæddur í náttföt og náttslopp og virðist hafa farið upp úr rúmi sínu um nóttina þegar hann heyrði skarkala og mætt morðingja sínum í stofunni. Engra verðmæta er saknað úr húsinu svo styggð virðist hafa komið að innbrotsmanni. Ekki reyndist mögulegt að taka upp fingrafar af hurðarhúni þar sem margir gengu um og snertu hann áður en ég kom á vettvang.
Leit að vísbendingum utanhúss bar engan árangur.
Við athugun kemur ekkert í ljós sem bendir til þess að hinn látni hafi átt í útistöðum við nokkurn mann eða nokkur við hann.”

Nokkrar svart/hvítar ljósmyndir fylgdu skýrslunni. Yfirlitsmyndir, úr stofunni í Birkihlíð, sýndu hvar lík Jacobs eldra lá á milli stóru leðursófanna.
Halldór sagði: “Hann virðist hafa orðið fyrir skotinu þar sem hann stóð á svipuðum stað og Jacob yngri var þegar hann var skotinn. Þetta verður sífellt einkennilegra.”
Nærmynd af höfði hins látna sýndi að skotið hafði hæft hann beint í hægra augað. Hrefna var fegin að myndin var ekki í lit. Vinstra augað var opið og þegar hún setti fingur yfir hægra augað virtist hann vera lifandi. Skýrsla læknisins sem framkvæmdi krufningu var næst í bunkanum.

(s. 96-97)