Endir og upphaf

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1999

Um þýðinguna

Ljóðabókin Koniec i poczatek eftir Wislawa Szymborska í þýðingu Geirlaugs.

Úr Endir og upphaf

Ærslaleikir

Ef til eru englar
efast ég um að þeir lesi
skáldsögurnar
um brostnar vonir.

Og ég er hrædd um að því miður
líti þeir ekki við ljóðunum
svo harðorðum um heiminn.

Ópin og æsingurinn
í leikverkunum
hlýtur, held ég
að vera þeim til ama.

Utan engilsiðju
og því ómennskari starfa
horfa þeir á
ærslaleiki
þöglu kvikmyndanna.

Í stað gráts og gnístranar
tanna rifinna
klæða og veina
kjósa þeir, það er ég viss um
veslinginn sem tosað var
drukknandi upp á hárkollunni
eða þann sem sárhungraður
smjattaði á skóreimunum.

Að sjá ofan mittis brjóststerkju, glæstar vonir
en að neðan skelkaða mús
skjótast úr buxnaskálm.
Slíkt
þykir þeim dýrleg skemmtan.

Eltingaleikur hring eftir hring
uns sá elti eltir þann sem eftir fer.
Ljósið við gangamunnann
reynist tígrisauga.
Hundrað ófara eru
hundrað heljarstökk
yfir hundrað hyldýpi.

Ef til eru englar
vona ég, að þeir
gleðjist yfir
þeirri gleði hættunni
þegar enginn hrópar á hjálp, hjálp
því allt fer þetta fram í þögn.

Ég get jafnvel ímyndað mér þá
klappa saman vængjunum
og tár falli úr auga
þó ekki væri nema af hlátri.