Elskan mín ég dey

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1997
Flokkur: 

Úr Elskan mín ég dey:

Systur mínar gæti bræðra sinna á jörðu niðri Jóhanna, Ólöf sáluga og mamma sitja við kringlótt borð í einum af mörgum sölum himnaríkis. Guð kemur að borðinu klæddur í pels og vaðstígvél. Mamma segir:
 “Dóttur mína langar að sjá í kíkinn, hún var að koma. Má ég fá hann lánaðan? Það er orðið langt um liðið síðan ég kíkti niður. Annars ætlum við að fá þrjá tvöfalda bacardi romm.”
 Guð tekur niður pöntunina og hverfur út um dyr á bakvið barborðið. Í sömu mund flýgur lítill engill rakleiðis til mömmu með kíkinn. Mamma setur kíkinn í gat á miðju borðinu, stillir hann og beygir sig yfir hann. Hún sér:

Fjóra stráka á aldrinum fimmtán til tuttugu. Allir eru þeir í strigaskóm en klæddir í mismunandi föt, frá jogginggalla til herrafata, einn þeirra er í gulum buxum. Þeir sitja á stólum og kössum í kringum gamlan verkfærabekk. Ofan á honum hvílir lík í bláum svefnpoka.
 “Það er orðið svo langt síðan ég sá strákana mína að ég þekki þá varla lengur. Að hugsa sér hvað Högni og Máni hafa stækkað,” segir mamma og horfir í kíkinn.
 “Þeir hafa stækkað,” segir Jóhanna, “og ekki get ég sagt að það hafi alltaf verið til góðs.”
 “Þú ert þó ekki að setja út á bræður þína, dóttir góð?”
 “Högni hefur aldrei náð sér eftir dauða þinn, mamma, en Máni er léttlyndur.”
 “Ég er sammála, “ segir Ólöf sáluga. “Máni hefur skapið þitt, mamma.”
 “Og hann sem fékk minni tíma með mér en hinir. Er lífið ekki skrítið? Æ, hvað það er gott að hafa stelpurnar sínar hjá sér. Ég var búin að vera svo einmana þangað til Ólöf sáluga kom náttúrlega. Og svo komst þú, Jóhanna mín. Kvenleggurinn er sameinaður.”
 “Og strákarnir sitja eftir með höfuðverkinn,” segir Ólöf sáluga.
 “Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur,” segir Jóhanna.
 “Elskan mín, þú sérð ekki eftir þessu? Mundu að hér færðu betra rými tilað passa upp á þá,” segir mamma og bendir Jóhönnu á kíkinn. “Sjáðu bara sjálf hvað bræður þínir hafa gert þig fína!”
 “’Eg er svo aldeilis hissa,” segir Jóhanna þegar hún hefur horft í kíkinn. “Ég er komin í svefnpokann!”
 Nú fer hún að hlæja og Ólöf sáluga heimtar að fá að sjá. Litli engillinn kemur fljúgandi með bakka. Á bakkanum standa þrjú glös af bacardi rommi.

(s. 24-25)