Eintal á alneti : Helgispjall

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1996
Flokkur: 


Úr Eintali á alneti:

136.

Ég hef minnzt á fegurstu ástarsögu íslenzkrar tungu. Hún er ein setning í Íslendinga sögu. Yfir henni er einhver jarðneskur svali sem mig minnir á morgungeisla í sporrækri dögg. Það er annarskonar tilfinning í ástum Beru og Ljósvíkingsins. Samt þessi nálæga heiðríkja einsog í Jónsmessunæturdögginni, en ástir Solveigar og Sturlu Sighvatssonar rísa úr grasinu við Örlygsstaði einsog helgisaga úr hillingum: Hvort gerðu þeir ekki Solveigu? Og einskis spurði hann annars.

En hver er þá fegursta ástarsaga heimsbókmenntanna? Kannski þær sem ég nefndi, kannski einhverjar aðrar, ég veit það ekki. En eftirminnilegasta ástarsagan er áreiðanlega þessi eina lína, þessi hverfuli fögnuður Kierkegaards, þessi undarlega alsæla í næsta nágrenni við hyldýpi örvæntingarinnar, þessi vímukennda fullnæging sem eiturlyfjaneytendur eltast við sýnkt og heilagt: Tilveran öll var einsog ástfangin af mér...(!)

Sjálft andartakið (!) En það virðist ekki beinlínis vera það ástand sem búddatrúarmaðurinn sækist helzt eftir, takmarkið mikla: að losna við sjálfan sig einsog hvert annað mein. Sturla Sighvatsson af öllum mönnum var nær því að höndla þetta eftirsóknarverða takmark í þeirri einu setningu um Solveigu sem varðveitzt hefur en Constantin Constantinus í setningunni um ást tilverunnar á aðalpersónu endurtekningarinnar og sæluvímuna í tengslum við hana.