Ég man þig

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2010
Flokkur: 

Fyrsta spennusaga Yrsu sem ekki fjallar um lögfræðinginn Þóru Guðmundsdóttur.

Af bókarkápu:

Ungt fólk sem er að gera upp hús á Hesteyri í Jökulfjörðum um miðjan vetur fer að gruna að þau séu ekki einu gestirnir í þessu eyðiþorpi. Á sama tíma dregst ungur læknir á Ísafirði inn í rannsókn á sjálfsmorði eldri konu. Hún virðist hafa verið hugfangin af syni hans sem hvarf fyrir þremur árum - og fannst aldrei.

Úr Ég man þig:

Þegar þau voru orðin ein helltist yfir Katrínu óþægilegur kvíði. „Hvað meinti hann með því að það færi misjafnt orð af húsinu?
Garðar hristi höfuðið hægt. „Ekki hugmynd. Mig grunar að hann viti kannski meira um okkar plön en hann vildi vera láta. Sagði hann ekki að mágkona hans sæi um reksturinn á gistihúsinu? Hann hefur bara verið að reyna að hræða okkur. Ég vona að hann fari ekki að breiða út einhverjar sögur um húsið.
Katrín þagði. Hún vissi að þetta gat ekki staðist. Fyrir utan Líf vissi enginn af fyrirætlunum þeirra. Hvorugt þeirra hafði rætt þetta við fjölskylduna af ótta við að eitthvað kæmi í veg fyrir að þetta gengi upp. Það var alveg nóg að þau vorkenndu þeim út af atvinnuleysi Garðars. Fjölskyldan stóð í þeirri meiningu að þau væru á leiðinni vestur í tilefni af vetrarfríinu í skólanum hjá henni. Nei, gamli maðurinn hafði ekki sagt þetta til að hræða þau heldur bjó eitthvað annað að baki. Katrín dauðsá eftir að hafa ekki gengið á hann og spurt betur út í þetta svo að ímyndunaraflið færi ekki að hlaupa með hana í gönur. Báturinn fjarlægðist hraðar en hana minnti að hann hefði siglt til lands og virtist undraskjótt orðinn á stærð við hnefann á henni.
„Rosalega er kyrrt hérna. Garðar rauf þögnina sem báturinn hafði skilið eftir sig. „Ég held að ég hafi aldrei verið í viðlíka fámenni. Hann beygði sig niður og kyssti hana á saltstorkna kinnina. „En hér er tvímælalaust nokkuð góðmennt.
Katrín brosti til hans og spurði ekki hvort hann væri búinn að gleyma lasarusnum henni Líf. Hún sneri sér frá hafinu þar sem hana langaði ekki að sjá bátinn hverfa alveg sjónum og horfði þess í stað á fjöruna og upp á landið. Líf var staðin á fætur og veifaði þeim ákaft. Katrín lyfti hendinni til að veifa á móti en lét hana falla þegar hún sá eitthvað hreyfast hratt á bak við hvítklædda vinkonuna. Þetta var biksvartur skuggi, mun myrkari en dökkt umhverfið. Hann hvarf jafnskjótt og hann hafði birst, svo að Katrín náði ekki að greina hvað var þarna á ferðinnni. Þó virtist henni þetta áþekkt lágvaxinni manneskju. Hún greip þétt um upphandlegg Garðars. „Hvað var þetta?
„Hvað? Garðar rýndi þangað sem Katrín benti. „Meinarðu Líf?
„Nei. Það var eitthvað sem hreyfðist fyrir aftan hana.
„Nei. Garðar leit á hana undrandi. „Það er ekkert þarna. Bara sjóveik kona í skíðagalla. Var þetta ekki bara hundspottið?
Katrín reyndi að virðast róleg. Það gat svo sem vel verið að henni hefði missýnst. En Putti var þetta ekki, svo mikið var víst, hann stóð fyrir framan Líf og hnusaði út í loftið. Kannski hafði vindurinn feykt einhverju lauslegu til. Það skýrði hinsvegar ekki hversu hratt þetta virtist fara yfir, en það gat auðvitað hafa komið snörp hviða eða strengur. Hún sleppti handlegg Garðars og gerði í því að anda rólega það sem eftir var göngunnar eftir flotbryggjunni. Hún sagði heldur ekkert þegar þau voru komin alla leið til Lífar. Það heyrðist þrusk og það brast í þurrum, gulnuðum gróðrinum fyrir aftan þau eins og gengið væri um hann. Hvorki Garðar né Líf virtust taka eftir neinu en Katrín gat ekki varist þeirri tilhugsun að þau væru ekki ein þarna á Hesteyri.
(s. 17-18)