Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1989
Flokkur: 

Úr Ég heiti Ísbjörg ég er ljón:

Önnur stund

Ég er ráðrík.
Ég eigna mér menn.
Og ég er vandlát. Vel mér aðeins þá til eignar sem eru myndrænir í hugsun og dálítið trylltir. Blæs anda mínum yfir þá. Og hann líður um þá. Fyrst hægt, næstum ósýnilegur. Síðan hraðar, slær sig upp eftir þeim, hnitar hringa yfir þeim, hnitar marga. Bíður færis. Sækir í sig veðrið. Sveimar. Verður sýnilegur. Stingur sér þá. Á kaf í holdið. Finnur sér farveg í blóðinu. Býr um sig. Sest að.
Ef andi minn sest að innra með fólki fer hann þaðan aldrei. Hann býr um sig og spýr eitri í hugskot þess. Og mynd mín hverfur því aldrei hvernig sem það berst við hana. Og það berst. Ég er máttug. Það máttu vita. Hann fer ekki þótt það berjist um á hæl og hnakka, berjist einsog fuglar í búrum við rimlana, berjist afþvíað það þráir frelsið einsog fuglarnir algleymi himinsins. Fólk sem þráir slíkt frelsi er dæmt til að farast Pétur. Slíkt frelsi er nefnilega ekki til. Sá sem þráir það sem ekki er til er dæmdur til að farast. Dæmdur til að sjá á eftir óskum sínum í sortann, í dauðatómt myrkrið. Hann verður haldinn af myrkrinu. Frelsið undan veröldinni er í dauðanum. Veröldin sjálf er sannleikurinn. Og undan honum sleppur ekki mitt fólk.
Og ég eigna mér menn afþvíað ég hef aldrei haft löngun til að eigna mér hluti. Og ég vil eiga menn sem anda og finna til. Þú ert minn maður Pétur. Ég eigna mér þig. En hingað til hefur andi minn aðeins leikið hægt um þig. Þú hefur varla fundið fyrir honum. Hann hefur varla snert þig. En það breytist. Ég er eiturálfur og máttur minn yfir þér felst í orðunum. Þau eru sproti minn og galdur. Orð mín eru það eina sem ég á núna fyrir utan þá menn sem ég hef eignað mér. Þá á ég alltaf.
Hefðirðu vitað þetta hefðirðu aldrei tekið málið að þér þótt þú værir þrábeðinn. En þú vissir ekkert. Allt sem þér var sagt um mig áður en þú komst hingað inn var ekki nema einsog dropi í þeim hafsjó af orðum sem ég mun hvísla að þér. Sú sem þú þóttist þekkja þegar þú komst er ekki nema brotabrot af þeirri konu sem þú munt minnast þegar þú ferð. Þó verður saga mín aðeins tólf stunda leiftur. Ljós sem hverfur út í sortann þegar tíminn, þessi gapfiskur, gleypir hana. Slípar hana. Meitlar hana og þeytir henni síðan út úr sér í eilífðarölduna þar sem hún týnist.

(33-34