Eftirmál

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2004
Flokkur: 

Ásamt Frey Njarðarsyni.

Úr Eftirmálum:

Eitt kvöldið missir Fritz af síðustu lestinni til Bijlmer. Um leið og hann horfir á eftir henni renna út af stöðinni, skríður kvíðnn einhvers staðar innan úr honum og vefur sig utan um hverja hugsun. Ef hann fær ekki kvöldfixið verður morgunninn óbærilegur. Hann á ekki fyrir snodder. Þá er ekki um annað að ræða en að fara niður í miðbæ, í Rauða hverfið. Það hugnast honum ekki. Hann veit að erfitt verður að finna eitthvað, ef aðalklíkan er ekki á vakt. Hann veit að þeir eru hvergi sjáanlegir á þriðjudögum, hvernig sem á því stendur. Súrínamar eru mjög hjátrúarfullir. Kannski hefur eitthvað slæmt komið fyrir á þriðjudegi. Er kannski þriðjudagur? Djönkarar telja ekki tímann í dögum, hvað þá vikum. Og hvað ef hann finnur þá ekki? Hvernig er hann þá staddur niðri í miðbæ um miðja nótt efnislaus og allslaus með fráhvörfin vofandi yfir sér? Hann hryllir við þeirri tilhugsun, en harkar af sér og stingur sér inn í miðbæjarlestina. Annað kemur hvort sem er ekki til greina.

Miðbæjarklíkunni stjórnar hávaxinn Súrínami sem er þó hvítur á hörund og með austurlenska andlitsdrætti. Fritz kanast við hann frá því áður fyrr. Hann hefur alla tíð verið þarna á flandri. Hann gengur undir nafninu Búrú, sem merkir hvítingi. Fritz keypti talsvert af honum þegar hann bjó á Íslandi og skrapp til Amsterdam í snöggar ferðir til að ná í efni. Hann telur sig þekkja Búrú sæmilega vel.

Í þetta sinn tekur ekki langan tíma að hafa upp á honum. Hann er nokkurn veginn á sínum venjulega stað. hann sýnir enga undrun þegar Fritz birtist svona allt í einu fyrirvaralaust. Þetta er hverfull heimur þar sem menn koma og fara, - og fara og koma stundum ekki aftur. Hann er hins vegar látinn bíða í upp undir klukkustund. Hann er orðinn mjög órólegur þegar Búrú kemur aftur. Hann afsakar sig með því að hafa misst dílera, án þess að útskýra það frekar. Þess gerist heldur ekki þörf. Fritz þykist vita hvað hefur gerst. Og nú fær hann allt í einu hugmynd.

Viltu ekki prófa mig? spyr hann.

Ha, segir Búrú. Prófa þig?

Já. Ég get vel selt þó að ég sé ekki Súrínami. Kannski er ekkert vitlaust að hafa líka svona einn Evrópugæja. Þú getur borgað mér í dópi.

Búrú lítur á hann undarlegu köldu augnaráði, svo köldu að Fritz hálfpartinn kveinkar sé rundan því. Hann sér stax eftir því að hafa asnast til að koma með svo augsýnilega fáránlega uppástungu. En þá kinkar Búrú kolli og segist skulu prufukeyra hann á næturvakt um næstu helgi. Og hann skuli ekki gera sér neinar vonir um annað en næturvaktir.

(63-4)